Ungbarnaeftirlitið mætti hér í Stóragerði í morgun. Þetta hljómar eins og lögreglu aðgerð! Reyndar kallar heilsugæslan þetta ungbarnavernd, en „eftirlitið“ leynist enn í nokkrum pappírum frá þeim.
Kappinn stóðst alla skoðun eftirlitsins, sýndi réttu viðbrögðin við öllum uppátækjum hjúkkunnar. Þar að auki hafði höfðinginn þyngst um 365 gr. á 7 dögum, er orðinn 3950 gr., en miðað er við að börn þyngist um ca. 200 gr. á viku. Áhyggjur mínar um að hann fái ekki næga næringu eru því ástæðu lausar. Mjólkin hefur aukist töluvert hjá mér, enda höfum við varla gert annað en að liggja á og tími til kominn að slaka á í þeim efnum. Prinsinn hefur síðustu þrjá sólarhringa bara fengið ábót á kvöldin og næturnar og í nótt sýndi hann því engan áhuga. Það lítur því út fyrir að mömmu mjólkin verði brátt fullnægandi. Ég get þá kannski farið að hugsa (og skrifa) um eitthvað meira en bara brjóstagjöf :-).