Kaffihúsaferð og heimsókn á Haðarstiginn

Það hefur verið mikið að gera hjá okkur þessa helgina. Anna Laufey fór í afmæli til Karenar Sifjar vinkonu sinnar á föstudaginn og skemmti sér konunglega. Í gær fór fjölskyldan í bíltúr og fjárfesti meðal annars í forláta leikteppi handa Tómasi Inga. Teppið er litríkt með alskyns furðudýrum og hringlum. Það spilar líka Mozart og dýrahljóð þegar sparkað er á réttan stað.

Í dag fórum við svo öll á kaffihús, í fyrsta skipti eftir að Tómas Ingi fæddist. Það var mjög notalegt og kaffið á Súfistanum stóð fyrir sínu. Tómas Ingi svaf allan tímann þó við værum alveg upp við kaffikvörnina sem malaði stanslaust. Tómas Ingi virðist reyndar einmitt sofa best og lengst þegar við erum á einhverjum þvælingi. Í kvöld buðu svo Guðrún Laufey og Þórir okkur í kvöldmat, sem vakti mikla lukku.