Við lögðum af stað frá Reykjavík á annan í jólum og héldum sem leið lá til Baltimore. Ferðin gekk úrvalsvel, reyndar kom í ljós að andúð Tómasar á snuðum leiddi til þess að hann fékk að drekka óvenjulega oft á leiðinni. Í Baltimore fórum við fjölskyldan á McDonalds á flugvellinum og komumst að þeirri niðurstöðu að slíkur matur væri ekki spennandi hér í Ameríku, þannig hefur Anna Laufey tilkynnt nokkrum sinnum síðan að henni langi EKKI í McDonalds þegar rætt hefur verið um matartíma.
Ferðin milli Baltimore og Columbus gekk síðan eins og í sögu, Anna og Tómas sváfu stóran hluta leiðarinnar, reyndar var hægara sagt en gert að vekja Önnu og koma henni út úr flugvélinni og hún sofnaði síðan á flugvellinum meðan við biðum eftir töskunum, í bílnum hjá Kristjáni Ara og síðan í fötunum í rúminu sínu á hótelinu. En þegar við komum til Columbus tók hann Kristján Arason á móti okkur og hjálpaði okkur við að komast á Cross Country Inn hótelið, sem n.b. skipti um nafn tveimur vikum eftir að ég bókaði og heitir núna Baymont Inn. Móttaka Kristjáns og aðstoð öll á flugvellinum og við að finna hótelið sem hafði skipt um nafn var ómetanleg, enda góður maður sem mætti t.d. í ferminguna mína forðum daga.