Anna í skólanum

Anna Laufey er byrjuð í skólanum. Hún er í 1. bekk hjá Mrs. Claydon og síðustu daga hef ég verið með henni í skólanum og iðulega Tómas Ingi einnig. Reyndar tók Jenný vaktina í morgun frá 8-11.
Það er ekkert grín að vera mállaus í 6 ára bekk, en Anna stendur sig mjög vel. Stelpurnar í bekknum hennar eru allar af vilja gerðar og keppast við að vera „Anna’s helper“ í frímínútum og matartímum. Það gekk svo langt í dag að tvær lentu í hörkurifrildi í Tónmenntartíma um hvor mætti sitja hjá Önnu. Á morgun byrjar Anna svo í sértímum í ensku, en þeir verða þrisvar í viku á skólatíma, 30 mínútur í senn.
Eftir að hafa dvalið í skólanum í tvo daga, sá ég ástæðu til að ræða við kennarann hennar Önnu um fordóma Evrópubúa í garð Bandaríkjamanna hvað varðar litla landafræðikunnáttu. Þeir fordómar eiga ekki við um bekkinn hennar Mrs. Claydon. Þannig er að í þessari fyrstu viku ársins hefur landafræði verið blandað inn í allt námsefni bekkjarins. Í stofunni eru alla vega þrjú hnattlíkön, það er unnið með púsluspil af heiminum, heimskortið við töfluna er mikið notað til að útskýra, þess utan læra börnin spænsku og í stærðfræði er notast við mismunandi gjaldmiðla og fjallað um þau lönd sem notast við þá. Einnig er merkilegt hvernig samþætting námsgreina fer fram, í leikfimi er notast við stærðfræði og spænsku, í myndmennt eru börnin að leira áttavita með tilheyrandi fræðslu og umræðum um m.a. landafræði og stærðfræði.
Á þessari fyrstu viku hafa þau unnið að tilraunum, hlustað á sögur og borið saman mismunandi frásagnarhefðir auk þess sem fjallað er um nálganir og ágiskanir í stærðfræði, börnin þjálfuð í meðferð peninga og þeir notaðir við margskonar útreikninga og þá er fátt eitt talið. Margviss skipting verkefna á börnin, s.s. að leiða röðina á leið í mat, ábyrgð á einstökum þáttum í daglegu starfi í kennslustofunni (þurrka af töflu, sópa gólf …). Allt er notað til að kenna og þjálfa börnin.

One thought on “Anna í skólanum”

  1. Börnin þjálfuð í meðferð peninga? Þarf maður eitthvað að læra það, erekki bara málið að afhenda öllum Visa

Lokað er á athugasemdir.