Eftir 29 daga í Ameríku höfum við gefist upp. Eftir heimsóknir í Target, Walmart, K-Mart, Big Lots, Sears, JC Penney, Kaufmann’s, Great Indoors, JC Penney Furniture Outlet, Value City Furniture, Macy’s Furniture og fjölmargar smærri búðir, eftir samtöl við Tim hjá Frontroom furnishing, John hjá OakExpress, Lawrence hjá Furniture Liquidators of America, Julie hjá La-z-boy að ógleymdri henni Sandee hjá Sofa Express and More, þá var uppgjöfin algjör. Í kvöld pöntuðum við matarborð og stóla, skrifborð, hillur, sófaborð og fjölmörg önnur húsgögn á heimasíðu IKEA hér í BNA. Það er með ólíkindum hvað er erfitt að fá húsgögn hér í Columbus. Eftir að hafa farið í fjölmargar verslanir í dag með Önnu Laufeyju og Tómasi Inga og séð hundruð eða þúsundir af sófum en hverfandi lítið af skrifborðum og bókahillum, var mér öllum lokið. Pöntunin í IKEA hljómaði upp á tæpa $1.500 svo að amerískri hefð gerum við ráð fyrir að upphæðin á VISA-kortinu verði öðru hvoru megin við $2.000 þegar skattar, sendingarkostnaður, þjónustugjöld og heimavarnaráðuneytisframlagið hafa verið lögð við. Nú bíðum við svars frá IKEA sem er væntanlegt eftir viku til 10 daga með upplýsingum um hvort vörurnar séu yfirleitt til, ásamt endanlegu verði og komudegi til Bexley. Þangað til hafa frekari húsgagnakaup verið sett á bið og vonandi er sú bið endanleg.
E.s. Rétt er að taka fram að Sofa Express and More seldi okkur ágætan sófa, það var ekki vandamál að finna sófa hér í Columbus. Eins er rétt að taka fram að í TARGET höfum við keypt kommóðu fyrir fötin hans Tómasar, náttborð og sjónvarpshillu. Þannig að þeim er ekki alls varnað. En gæðin, verð og einfaldleiki í samsetningu kemst ekki nálægt því sem IKEA býður.
Já, það er rétt ég hef farið í a.m.k. 18 verslanir til að leita að húsgögnum hér í BNA, sumar oftar en einu sinni.
Merkilegt nokk, en hefur þú rekist eitthvað á Apple búðir eða eitthvað þvíumlíkt sem geta selt mér eitt stykki Ipod þegar ég kem í apríl?
Það er Apple-sérverslun í svona 20 mínútna fjarlægð frá okkur sem er hrikalega flott.