Jenný skólastelpa

Hann Elli minn hefur verið duglegur að flytja fréttir af okkur, en það er nú líklega tími til kominn að ég segi aðeins frá nýja skólanum mínum. Í stuttu máli er ég ánægð, þó ég sé kannski ekki enn búin að venjast því að vera aftur komin á skólabekk með tilheyrandi lestri, heimadæmum og prófum. Ég er í tveimur kúrsum, 9 einingum, sem er lágmarkskrafa fyrir TA (Teaching Assistant), ég ákvað að það væri fullnægandi svona fyrstu önnina.

Annar kúrsinn fjallar um skipulagningu tilrauna (endalausar ANOVA töflur). Þetta hefur hingað til bara verið upprifjun frá því sem við Adda tókum í DTU á sínum tíma. Mér finnst reyndar bara ágætt að vera í auðveldum kúrsi á meðan við erum að koma okkur fyrir og venjast aðstæðum. Ég þarf hvort eð er að rifja þetta efni upp fyrir Qualifier I prófið í haust og tímarnir eru ágætir, kennarinn segir alskyns skemmtisögur um fræga tölfræðinga.

Ég þarf að hafa töluvert meira fyrir hinum kúrsinum. Hann er annar hluti af þriggja kúrsa röð um fræðilega tölfræði. Þar er farið dýpra í þau hugtök og setningar sem ég þekkti fyrir og þó nokkuð af nýjum hlutum líka. Það gerir mér erfiðara fyrir að ég sat ekki fyrsta kúrsinn í þessarri röð og þarf að lesa hann eiginlega samhliða (þetta kostaði mig 9 stig af 50 á skyndiprófi í vikunni). Mér gengur þó bara nokkuð vel og það hjálpar mikið að prófessorinn er frábær kennari.

Ég er líka að kenna tveimur dæmahópum, um 60 nemendum. Mér hefur gengið sæmilega með enskuna, nemendurnir hafa allavega ekki kvartað mikið, en þetta hefur verið meiri vinna en ég bjóst við. Hér er mikið lagt uppúr góðri þjónustu við nemendur og það þýðir auðvitað meiri vinnu fyrir kennara. Í námskeiðinu eru nokkur hundruð nemendur í grunnnámi víðsvegar að úr háskólanum. Auk þess að geta valið milli morgun, seinnipart eða kvöld fyrirlestra geta nemendur valið milli tveggja tegunda af fyrirlestrum, annars vegar fyrir „active learners“ þar sem meira er lagt uppúr þátttöku nemenda og hins „reflective learners“ sem er hið hefðbundna fyrirlestra form. Nemendurnir skila heimadæmum í hverri viku, verkefnum sem eru unnin í dæmatíma og skýrslu um hvernig það sem þau lærðu í dæmatíma tengist því sem var tekið fyrir í fyrirlestrum og heimadæmum. Ég þarf svo að fara yfir þetta allt og það tekur sinn tíma sérstaklega þar sem mest af þessu er texti (misjafnlega skýr) en næstum engir útreikningar. Þar að auki er ég tvo tíma í viku í hjálparherbergi sem er opið nemendum alla daga vikunnar og þar sem ég er að kenna kúrsinn í fyrsta sinn þarf ég að sitja fyrirlestrana (nýti yfirleitt tímann til að borða nestið mitt)

Læt þetta nægja af skólalífinu í bili.