Sportacus/Stephanie og Elli/Tómas

Í gær var ég að ganga rétt við Cassingham Elementary þegar kona með tvo hunda kallaði til mín. „Where is your Stroller?“ Ég náði ekki spurningunni strax, en áttaði mig svo á að hún var að vísa til þess að Tómas var ekki með mér.
Undanfarna viku hef ég veit því athygli að sífellt fleiri heilsa mér á götu hér í Bexley og hvar sem ég kem í bænum virðist fólk vita hver ég er. Ég er nefnilega maðurinn sem geng með barnavagninn. Íbúðin sem við búum í er við jaðar skólahverfisins og ég geng á hverjum degi og sæki Önnu í skólann og þrjá morgna í viku, skutlar Jenný okkur í skólann hennar Önnu 30 mínútum áður en skólinn byrjar, ég bíð með Önnu þar til bjallan hringir og geng svo heim á leið. Oftast með viðkomu á Cup O Joe, þar sem Tómas sefur í kerrunni og ég fæ mér kakóbolla, croisant og les blöðin. Hina tvo dagana þarf Jenný ekki að fara jafn snemma og skutlar Önnu á réttum tíma.
Þessar göngur mínar hafa vakið athygli hér í hverfinu. Þannig þetta barst í tal, þegar ég heimsótti skólahjúkrunarfræðinginn í Cassingham í gær. Foreldrar í bekknum hennar Önnu hafa verið duglegir að ræða þetta og spurning hvort ekki sé komin tími til að setja í gang átaksverkefni í Latabæjarstíl að allir gangi í og úr skólanum í eina viku.
Sérstaklega er merkilegt að ræða þetta við heimavinnandi húsmæðurnar sem fara út að skokka í klukkustund á dag, en passa sig að vera komnar heim nægilega snemma til að geta náð í bílinn og sótt börnin í skólann.
Með öðrum orðum ég og Sportacus virðumst helstu fyrirmyndir Bexleybúa um hollt og heilsusamlegt líferni.

One thought on “Sportacus/Stephanie og Elli/Tómas”

Lokað er á athugasemdir.