Í gær kom veturinn loksins hingað til Columbus, með frosti og smá snjó. Í sjónvarpinu var talað um „Snow Storm“ en mér þótti nú ekki nógu mikill vindur til að réttlæta þá lýsingu. En það verður líka að viðurkennast að það þarf ekki mikið að vera að veðri til að gera manni erfitt fyrir á hraðbrautinni, svo það er ekki skrýtið að hér sé gert meira úr smá skafrenningi og hálku en heima á Íslandi.
Og í þessu vetrarveðri fórum við Anna Laufey á sýninguna Disney on Ice: Princess Classics í nýju skautahöllinni hér. Sýningin var algert ævintýri, frábærir skautadansarar (sumir fyrrum ólympíu keppendur) í mögnuðum Disney búningum. Sýnd voru stutt sögubrot um Disney prinsessurnar, Litlu hafmeyjuna, Fríðu, Jasmín, Mjallhvíti, Þyrnirós og Mulan og eftir hlé var sýnd öll sagan um Öskubusku. Aukapersónur eins og Andinn úr Aladdín og dvergarnir sjö vöktu líka mikla lukku, ekki síður en Mína og Mikki sem voru gestgjafar kvöldsins. Skautahöllin var næstum full og margar litlar stelpur voru klæddar í prinsessukjóla. Við Anna Laufey skemmtum okkur mjög vel, ég var líka fegin að við ákváðum að kaupa sæti á góðum stað, við sátum beint á móti stóru höllinni á sviðinu og ekki of hátt uppi. Að vísu varð kvöldið aðeins dýrara en til stóð, við mæðgur misstum okkur aðeins í Disney sölubásunum, við eyddum meira þar en miðarnir kostuðu :-). En aðalatriðið var auðvitað að við mæður áttum skemmtilegt kvöld saman.
Ég væri til að sjá sýninguna Elli on ice
Ég veit ekki betur en ég hafi um nokkurra ára skeið farið reglulega á skauta á Melavellinum. En neyðst til að leggja skautana á hilluna þegar menntaelítan á Íslandi heimtaði bókasafn á skautasvellið.