Ég skrapp í bíó í kvöld. Þannig er að eitt virtasta kvikmyndahúsið á Columbussvæðinu er í götunni, Drexel Theatre, en þar eru sýndar myndir sem eru ekki líklegar til almennra vinsælda mikilvægustu bíófaranna.
Ég gekk í bíó, sem er ekki algengur ferðamáti í þessu landi, enda mun lengra að keyra. Þetta var skemmtileg upplifun. Þegar ég kom í bíó-ið flaug mér í hug, þegar ég fór í Laugarásbíó áður en sölunum var fjölgað eða gamla Tónabíó, þar sem ég fór með Jonna og Hlyn á James Bond. Sætin voru langt í frá jafn „modern“ og í bíó-inu upp í Easton, þar sem ég og Anna Laufey fórum um daginn. Mig reyndar kveið fyrir að sitja í 2 klst og 44 mínútur, þegar ég sá þau. Þau voru samt ekki jafn hörð og ég hélt. Myndin sem ég fór að sjá var Munich, í leikstjórn Steven Spielberg og það var merkilegt að sitja í bíósal þar sem enginn áhorfenda virtist undir 30 ára. Reyndar hafði ég á tilfinningunni að eina fólkið undir þrítugu væru krakkarnir í miða- og sælgætissölunni. En hvað um það myndin var áhugaverð og hægt er að sjá vangaveltur mínar um innihald hennar á annall.is/elli.