Sofa Express stendur ekki alveg undir nafni. Þrátt fyrir að lofa afhendingartíma upp á 21 dag í búðinni, þá er sófinn ekki kominn þrátt fyrir að liðnir séu 23 dagar síðan hann var pantaður.
Ég fór í búðina í gær til að leita frétta og gera upp. Sölukonan Sandee var ekki við en maðurinn sem tók að sér að aðstoða mig, fletti pöntuninni upp tilkynnti mér að afhendingardagur væri skráður 23. febrúar, nákvæmlega 1 mánuði eftir að við pöntuðum. Ég benti honum á að 31 dagur væri meira en 21 dagur, en hann svaraði að bragði að Sandee væri ekki við. Ég ákvað að bíða með að gera sófann upp, þrátt fyrir að sölumaðurinn benti mér á að uppgjör þyrfti að eiga sér stað tveimur sólarhringum fyrir áætlaðan afhendingartíma. Ég hins vegar hugsaði sem svo að það væri rétt að hinkra yfir á næsta Vísatímabil, fyrst sófinn væri hvort eð er ekki væntanlegur fyrr en í lok næstu viku.
Fréttir af öðrum húsgögnum eru þær að IKEA hefur tekið greiðslu af kortinu mínu fyrir húsgögnunum sem við pöntuðum, en ekki hafa borist neinar fregnir þaðan af áætluðum afhendingartíma. Niðurstaðan er því sú að við höfum borgað fyrir fullt af IKEA-húsgögnum sem eru einhvers staðar og koma einhvern tímann.