Undanfarið hefur heyrst væl í bremsunum á bílnum okkar og ef við höfum bremsað ákveðið á 65 mílna hraða hefur komið fram titringur í stýrinu. Jenný sem er næstum einvörðungu á bílnum hefur skiljanlega haft af þessu nokkrar áhyggjur. Þar sem ég var á bílnum í dag, Anna og Tómas áttu að fara í bólusetningu sem reyndar tókst ekki alveg (það er efni í aðra færslu),
ákvað ég að skjótast með Tómasi til Ricart bílasala og athuga hvort hægt væri að fá tíma í check útaf bremsunum. Ég lærði hins vegar að þannig virkar þetta ekki hér í BNA, alla vega ekki hjá Ricart. Þar var tekið fagnandi á móti mér og mér sagt að viðgerðin tæki um 2 klst og þeir gætu tekið bílinn inn núna strax. Ég var svolítið hikandi enda vissi ég sem var að ég þyrfti að sækja Jennýju í skólann eftir 1 klst og 30 mínútur. Það var ekki vandamál fyrir Ricart, enda bílaleiga á verkstæðinu og hægt að fá bíl fyrir $35 á sólarhring meðan gert væri við bílinn okkar.
Ég sló að sjálfsögðu til og bíllinn okkar fór með það sama inn á verkstæði. Við Tómas gengum svo með verkstæðissölumanninum á bílaleiguna, en þá kom babb í bátinn. Til að leigja bíl þarf annað hvort BNA-ökuskírteini, sem ég hef trassað að redda mér eða vegabréf með íslenska ökuskírteininu. Reyndar var Ísland ekki á lista yfir samþykkt lönd, en þeir voru til í að líta fram hjá því ef ég hefði vegabréf, sem ég hafði ekki.
Þetta fór því svo að verkstæðisrútan skutlaði mér og Tómasi heim þar sem við erum nú og vonandi kemst Jenný heim með leigubíl áður en ég þarf að fara aftur á verkstæðið. Það er líka ástæða til að segja frá því að Ricart bílasali, lét mig vita af því að nú styttist í 60.000 mílna skoðun á bílnum okkar og þá er að jafnaði skipt um tímareim. Ricart gerði mér tilboð í skoðunina og reimaskiptin upp á $1250. Ég lofaði að velta því fyrir mér fram á vor.
6 thoughts on “Bílavesen”
Lokað er á athugasemdir.
Rétt í þessu hringdu Ricart og félagar og létu vita að bremsurnar að framan væru í betra standi en þeir áttu von á. Hins vegar væru bremsuklossarnir að aftan ónýtir og það kostaði mun meira og tæki lengri tíma að gera við þá en gert var ráð fyrir í upphafi. Ég sé því fram á að taka verkstæðisrútuna niður á verkstæði á eftir, með vegabréfið, taka bílaleigubíl og vera á honum í kvöld og á morgun, þar til bíllinn okkar er tilbúinn. Fyrst þarf hins vegar Jenný að koma heim, en hún vildi fremur taka strætó en leigubíl, þannig að það mun taka einhverjar mínútur í viðbót. (Þessi færsla er tilraun til beinnar útsendingar á lífinu í Bexleybæ.)
Bíllinn kom úr viðgerð rétt í þessu. Búið var að skipta um bremsuklossa að aftan, yfirfara helstu þætti bifreiðarinnar, skipta um vökva á sjálfskiptingunni og ýmislegt fleira. Annars fékk ég bílaleigubíl í gær til að skutla Önnu í skólann í morgun, Ford Freestar – minivan, mjög hráan að vísu. Ég skilaði honum núna áðan þegar ég fékk bílinn aftur.
Er ekki rétt að óska þér til hamingju með daginn Elli! Ef ég man rétt þá ertu árinu eldri í dag ekki satt?
Bestu kveðjur annars til ykkar allra(o:
Bee og co.
Til hamingju með afmælið Elli, það er haldið upp a það í BNA er það ekki. Frá Magnúsi, Kristjönu, ET og GTM jr.
Og hvað kostaði viðgerðin?
Það kemur ekki fram að í gær hringdi verkstæðissölumaðurinn hjá Ricart í mig og sagði að viðgerðin myndi að líkindum kosta $599,61 með skatti – en fyrsta áætlun á verkstæðinu fyrr um daginn var $299, reyndar bara fyrir bremsuklossa að framan. Þegar ég svo mætti í morgun þurfti ég að borga $579,21 og fannst auðvitað að ég hefði sparað $20.
60.000 mílna skoðunin á $1.250 vofir samt enn yfir og verður gengið í það verkefni með vorinu.