Ég, Anna og Tómas ákváðum að skreppa núna síðdegis í Whole Foods Market en Steini (Steinn Jónsson) benti mér á í gær að þar væri stundum hægt að kaupa íslenskan mat. Við keyrðum sem leið lá í Dublin í grenjandi rigningu og þrumuveðri og eftir 25 mínútna akstur komumst við á leiðarenda, en í Dublin reyndist vera sól og u.þ.b. 25 stiga hiti. Önnu Laufeyju fannst lyktin í búðinni ekki spennandi, enda kannski ekki von á góðu þegar saman koma ostar úr öllum heimshornum, m.a. Höfðingi frá Mjólkurbúi Flóamanna, hvers kyns kryddjurtir, kjöt, pylsur og sushiréttir svo fátt eitt sé nefnt.
Við gengum samt um búðina og Anna kættist fljótt þegar hún sá að við gátum keypt íslenskt vatn og kátínan náði hámarki þegar við rákum augun í skyr.is-dollurnar. Þegar betur var að gáð kom reyndar í ljós að dollan kostar $2.99, eða rétt um 215 krónur skv gengi dagsins í dag, sem verður að teljast verulega mikið samanborið við jógúrtið frá Yoplait sem kostar rétt um 50 cent út í Kroger (36 kr). Þá má nefna að barnamáltíð á McDonalds kostar einmitt $2.99. Þrátt fyrir verðið keyptum við nokkurt magn af Vanilluskyri og Bláberjaskyri, en aðrar tegundir reyndust ekki í boði.
Við fórum víðar í búðinni og staðnæmdust næst við kjötborðið og spurðum um lambalæri frá Íslandi og var tilkynnt að það fengist að jafnaði aðeins þrjá mánuði á ári, frá miðjum september og eitthvað fram í nóvember. Það seldist alltaf upp og því væri ekkert fryst til að selja síðar. Einn starfsmaðurinn í kjötborðinu bætti síðan við að allar helgar frá september og fram í nóvember, væri fólk með „funny accent“ að kynna íslenskt lambakjöt í búðinni. Íslendingarnir sendu nefnilega fólk frá Íslandi til Columbus, til að tryggja að kjötið seldist upp. Þetta fannst kjötborðskörlunum fremur fyndið, enda líklega áttað sig á hvaðan við komum.
Í fiskborðinu var hægt að kaupa heilan lax frá Íslandi og hvers kyns fisktegundir sem ég þekkti ekki, en eru veiddar við Íslandsstrendur. Hvað aðrar vörur varðar, þá fann ég loksins Carlsberg bjór, en hann er ekki fáanlegur í almennum matvöruverslunum hér í Columbus.
Ég hef ekki áður farið í matvörubúð hér í Columbus sem Önnu hefur þótt jafn spennandi, þrátt fyrir lyktina og ljóst að þangað verður farið aftur, þótt verðlagningin og staðsetningin leyfi ekki að dagleg innkaup fari þarna fram.
Við héldum síðan heim á leið eftir rúmlega klukkustundarheimsókn, hlaðin vatni, bjór og skyri og keyrðum úr sólinni í Dublin inn í þrumuveðrið hér í syðrihluta Columbussvæðisins.
One thought on “Skyr.is”
Lokað er á athugasemdir.
Halló ameríkubúar. Við kíkjum reglulega á síðuna og fylgjumst með ævintýrum ykkar – berum þau jafnvel saman við okkar ævintýri í Cardiff. Við samgleðjumst ykkur yfir að hafa fundið skyr.is – þess hefur verið saknað enda fæst slíkt góðgæti ekki í Cardiff borg.
Kærar kveðjur til ykkar, Ólöf og Bjössi.