Já nú er fríið búið og skólinn kominn á fullt aftur, meira að segja komin önnur vika! Ég er fleiri kúrsum í þetta sinn. Ég sá fram á að námið tæki alltof langan tíma ef ég tæki bara 9 einingar á ársfjórðungi sem er lágmarkskrafa. Ég er nú í 13 einingum, 3 venjulegum kúrsum og einum leskúrs.
Einn kúrsinn er lokahnykkurinn af fræðilegri tölfræðiröð sem myndar kjarnann í „qualifier“ I prófinu sem ég tek næsta haust. Kennarinn er Ítalskur með óperudellu á háu stigi og bayes-isti í húð og hár. Fyrir þá sem ekki vita þá skiptast töfræðingar í „frequent-ista“ og „bayes-ista“ og getur verið ansi sterkur rígur á milli. Ég hef ekki áður lært neina „bayes“-fræði utan grunn skilgreiningar svo ég telst (allavega ennþá) til frequentista.
Svo er ég í línulegri aðhvarfsgreiningu sem ég kann reyndar nokkuð vel fyrir. En þar sem ég þarf að standa skil á þessu efni á fyrrnefndu „qualifier“ prófi þá ákvað ég að láta kennarann sjá um upprifjun fyrir mig og fylla í göt ef einhver eru. Þriðji kúrsinn er umhverfistölfræði, mér fannst nafnið svo töff að ég varð að slá til. Þar er fjallað um hvernig ýmsum tölfræðilegum aðferðum er beytt á umhverfisfræðileg gögn. Þetta er fyrsti tölfræðikúrsinn á mínum ferli þar sem er fókuserað á hagnýtingu á ákveðnu sviði en ekki eina ákveða tölfræðiaðferð. Hér við deildina er hópur af umhverfistölfræðingum SSES sem eru í fremstu röð á sínu sviði. Ég þarf líka að fara að hugsa um á hvaða sviði ég vil gera doktorsverkefnið mitt og datt í hug að sjá hvort þetta væri spennandi svið. Leskúrsinn er líka hugsaður sem tækifæri til að skoða eitthvað annað en gert er í hefðbundnum kúrsum með væntanlegt doktorsverkefni í huga. Þar mun ég skoða einhverskonar líftölfræði, ekki alveg búið að móta stefnuna þar. En mér líst sem sagt bara vel á þennan ársfjórðung, virðist verða hæfileg blanda af fræðum og hagnýtingu.