Föstudagurinn langi

1642

Þetta árið var föstudagurinn langi með mjög óvenjulegu sniði hér hjá okkur í Bexleybæ. Enda dagurinn frídagur hjá fæstum í BNA, þó reyndar Cassingham Elementary School hafi verið lokaður.
Þar sem Anna Laufey var í fríi, Bragi og Baldur voru í heimsókn og í dag var fyrsti opnunardagurinn í Paramount Kings Island hér í Ohio tók Jenný sér frí í skólanum. Var því næst ákveðið að haldið skyldi í skemmtigarð. Til að verkefnið gengi upp leigðum við í gær minivan og vildi svo vel til að bíllinn er með DVD-kerfi. Því keyptum við Anna Laufey m.a. Narníu á DVD, til að auðvelda aksturinn í skemmtigarðinn.
Í morgun var síðan haldið af stað um 9:20 í átt til Cincinatti, rétt um hálfri klukkustund síðar en áætlað var. Disney Princess Stories 1 var í tækinu og skemmtu Bragi, Baldur og Anna sér konunglega yfir spennandi efninu. Á I-71 var unnið að viðgerðum á veginum og seinkaði það okkur um annan hálftíma. Kom sér þá vel að Narnía var með í för. Við fengum okkur að borða rétt áður en við héldum inn í garðinn og vorum mætt með miðana okkar í málmleitartækin við hliðið um kl. 12:00. Baldur og Bragi fóru í fullorðinsdeildina en Anna Laufey og Jenný fóru í LazyTown þyrlurnar og urðu þannig að öllum líkindum fyrstu Íslendingarnir til að prófa þessa stórkostlegu útrásarvöru Íslendinga. Til að komast í tækið þurftu þær að bíða nærri 45 mínútur. Að þessu loknu var farið í ýmis fleiri tæki, Anna fór ein í rússíbana, sem pabbi hennar passaði ekki í og síðan var farið í draugahús. Elli, Jenný og Anna fóru í vatnsrússíbana og svo mætti lengi telja. Það sem var þó líklegast hvað skelfilegast var þegar Anna Laufey taldi kominn tíma til að prófa „Skepnuna“ (e. The Beast) en það er 25 ára gamall timburrússíbani, þar sem ferðin tekur ríflega 4 mínútur en hann er lengsti rússíbani sinnar tegundar í heiminum (að sögn heimasíðu garðsins) og fer á ríflega 60 mílna hraða í gegnum hvers kyns beygjur og sveigjur. Eins og liberal foreldrum sæmir ákváðum við að leyfa henni að fara í rússíbanann í fylgd föður síns og verður að segjast að ég hef sjaldan verið jafn hræddur. Enn við lifðum þetta af og í kjölfarið ákvað Anna að plata mömmu sína tvisvar í litla rússibanann sem hún hafði farið í fyrst, fékk Baldur með sér í rússíbana sem rólaði í loftinu og neyddi Baldur með sér eina bunu í vatnsrússíbana. Baldur og Bragi fóru einnig í fjöldann allan af tækjum og má þar nefna rússíbana sem fer tvær lykkjur og fjórfalt spinn, þannig að alls er farið sex sinnum á hvolf, þeir létu skjóta sér upp/niður í teygju og prófuðu „Skepnuna“ áðurnefndu. Vildi Baldur meina að það væri eitt svakalegasta tækið og Önnu Laufeyju óhætt að fara í öll tæki í garðinum fyrst hún réði við það. Þessari ábendingu verður EKKI fylgt eftir næstu árin.
Eftir ævintýralegan dag, þar sem veðrið hélst að mestu þurrt en sólarlaust í 29 gráðu hita, var öllum lokið í lok dags. Það var með naumindum að við réðum flest við að borða á Ruby Tuesday áður en keyrt var heim í grenjandi rigningu og þrumuveðri sem lýsti upp allt umhverfið með reglubundnu millibili. Þegar komið var á ný til Columbus um kl. 10:30 voru fáir með fullri rænu í bifreiðinni, það var þá helst Anna Laufey sem sat spennt og horfði á Disney Princess Stories 2 í DVD-kerfinu í bílnum. Nú er rétt um 30 mínútur síðan við komum heim og ég heyri ekki betur en að allir séu sofnaðir eftir viðburðaríkan dag. Hins vegar er Guð enn þarna úti að taka myndir með flassi.

2 thoughts on “Föstudagurinn langi”

  1. Anna Laufey hefur greinilega rússíbanagenin frá henni frænku sinni, spurning að við hittumst við tækifæri í Disney world þegar frænkan verður aftur komin með grænan passa á rússibanaferðir
    Takk fyrir myndirnar, góður hattur á TI

  2. Gleymi aldrei þegar Mangi fór í „lúppen“ í Lísebjerget með gleraugun á nefinu ég skil ekki þessa ástríðu, ég er alltaf svo hrædd þegar farið er á haus. Engin rússíbanagen frá mér. kveðja

Lokað er á athugasemdir.