Góðmennið ég

Ég skrapp áðan út í Kroger, eins og ég geri stundum á kvöldin. Þegar ég var búin að fylla körfuna með vatni á flöskum og barnamat í krukkum fór ég eins og lög gera ráð fyrir að kassanum í búðinni. Það voru bara tveir kassar opnir og fremur löng röð við þá báða svo ég byrjaði að bíða. Skyndilega tók ég eftir að verið var að opna kassann við hliðina á þeim sem ég beið við. Ég ákvað að grípa tækifærið og verða fyrstur að nýopnaða kassanum. Jafn snöggt skaut niður í huga mér að ég væri nú ekki svo að flýta mér. Því væri gaman að gera góðverk og bjóða konunni fyrir framan mig í röðinni að fara á undan mér að nýopnaða kassanum. Enda er ég góðmenni og hún var bara með þrjá eða fjóra hluti í kerrunni sinni.
Konan leit á mig þegar ég bauð henni að fara á undan og ég bjóst við fallegu brosi og þökkum, en það var nú ekki. Hún skammaðist yfir því að kassinn hefði ekki verið opin áðan, OPEN-ljósið væri ekki komið á og hún hefði þurft að bíða lengi í röðinni. Hún tók nú samt boði mínu og fór á undan mér. Ég tók því stöðu fyrir aftan hana.
Það var rétt að konan var ekki með nema þrjá eða fjóra hluti en henni tókst að kvarta yfir verðinu á bacon-inu, hvernig upplýsingar um verð kom fram á strimlinum og skamma afgreiðslumanneskjuna fyrir að misskilja eitthvað sem hún var að vesenast með. Þegar loks kom að mér voru engir viðskiptavinir að bíða við hina kassana, allir sem áður stóðu í röðum voru farnir út.

Áður birt á annál Ella.