Mér og Önnu Laufeyju var boðið í mat og brids í gærkvöldi hjá Shannon og fjölskyldu hennar. Shannon er þriðja árs tölfræði nemi (fyrrum stærðfræðinemi) og kennir sama kúrs og ég. Á mánudagskvöldið var, hittist allur kennarahópurinn til að fara yfir nokkur hundruð miðannarpróf. Á slíkum yfirferðar-kvöldum splæsir deildin á okkur pizzum og mikið er spjallað.
Þegar upp kom að ég kynni eitthvað í brids var Shannon snögg til að bjóða mér að spila. Þar sem hún á átta ára gamlan son þá þótti okkur auðvitað upplagt að hafa þetta „play-date“ í leiðinni. Við áttum notalega kvöldstund, krakkarnir náðu vel saman. Ég var frekar riðguð í spilamennskunni og hafði ekkert spjald að styðjast við í sögnunum en sem betur fer notuðu þau standard kerfið. Þetta kom þó ekki að sök, enda voru spilafélagarnir afslappaðir og skemmtigildið í fyrirrúmi. Við Shannon vorum reyndar ekki heppnar með spil, ég var yfirleitt ekki með nema um 10 punkta. Eiginmaður Shannonar og tengdapabbi náðu tveimur rúbertum þetta kvöld (opnuðu tvisvar á 2 laufum) en ég spilaði bara eitt spil (1 grand, fór einn niður!).