Lee, MA – Boston, MA
Í dag lá leið okkar fremur beint. Stefnan var sett á Boston með viðkomu í Springfield hér í Massachusetts, en þar er minningargarður um Dr. Seuss og verk hans.
Við vöknuðum rétt um kl. 9 í morgun, fórum í morgunverð á Super 8 mótelinu, sem samanstóð af hvítum beyglum, dökku og ljósu franskbrauði, nokkrum sultutegundum, smjöri, appelsínu- og eplasafa, kaffi og múffum, annars vegar með bláberjum og hins vegar með bananabragði. Þetta var síðan framborið við ristavél sem tók fjórar brauðsneiðar í einu (eða tvær beyglur). Við yfirgáfum Lee rétt um kl. 10:15 og eigum ekkert fremur von á að stoppa þar síðar, en líklega er best að segja aldrei aldrei.
Frá Lee héldum við í rúmar 40 mílur til Springfield og ókum þar í nokkra hringi í leit að Dr. Seuss og garðinum hans. Á leið okkar keyrðum við nokkrum sinnum fram hjá Basketball Hall of Fame, en það var einmitt í Springfield sem KFUM-arinn sem ég man ekki hvað hét fann um körfuboltaíþróttina. Reyndar keyrðum við líka fram hjá KFUM í Springfield a.m.k. tvívegis.
Okkur tókst fyrir rest að finna State Street og aka þar upp að Elliot Street og komast að garðinum, sem reyndist í miðju safnasvæði. Utan safnanna var fátt um fína drætti og íbúðarhúsin í kring verða seint sögð vistleg, utanfrá séð alla vega. Við fórum inn á vísindasafn, fengum frítt inn út á árskortið í COSI í Columbus og gengum þar hring, lítið minnst á Dr. Seuss þar. Í andyrinu hins vegar var hægt að kaupa, spil, bækur, föt, DVD-diska og hvað eina annað sem minnti á þennan merka þegn Springfield-bæjar. Úr andyri vísindasafnsins gengum við svo út í Dr. Seuss-garðinn sem samanstóð af nokkrum skemmtilegum bronsstyttum, þar af eina af manninum sjálfum (hægt er að sjá þær flestar í myndasafninu).
Við komum við hjá Ronald frænda áður en haldið var úr Springfield og vorum mætt utan við Radisson Hotel Boston um kl. 15:15 eða 3:15pm eins og sagt er hér.
Við tókum það rólega eftir að við fórum inn í risaherbergið okkar á 12. hæð, horfðum m.a. á Suður-Kóreumenn jafna á móti Frökkum meðan Anna horfði á teiknimyndir í hinu sjónvarpinu á herberginu.
Við skruppum síðan út um kl. 17, gengum um Boston Common-garðinn, sem er á þarnæsta horni og enduðum á kínverskum veitingastað. Við komum síðan upp á hótel aftur um kl. 19:30. Anna og Jenný skruppu í sundlaugina og nú um kl. 22 eru börnin sofnuð.
Í framhjáhlaupi má geta þess að Anna féll ekki alveg fyrir Super8 mótelinu í Lee, enda var málfræðivilla á vasanum utan um hótellykilinn. Anna varð yfir sig hneyksluð á því að greini (ákveðinn eða óákveðinn) vantaði framan við orðið key í setningu sem fjallaði um að skila lyklinum þegar bókað væri út.
ATH.: Myndum frá ferðalaginu er skipt upp í möppur fyrir hvern dag. Ólíkt myndasafninu að öðru leiti er myndunum í ferðalagsmöppunum raðað í rétta tímaröð en ekki öfuga röð líkt og myndum í öðrum möppum safnsins.