Skiptum liði á sjötta degi

2168

Boston, Ma – Hyannis, Ma

Í dag var brottfarardagur af Radisson hótelinu hér í Boston. Við byrjuðum með morgunmat á hótelinu, ég og Anna komum töskunum út í bíl og síðan var haldið með neðanjarðarlest á vit ævintýranna. Ég, Anna og Tómas fórum í háhýsi með útsýni yfir borgina á 50 hæð en Jenný fór á Museum of Fine Arts. Það uppgötvaðist reyndar fljótt að ekki er gert ráð fyrir barnavögnum í neðanjarðarkerfi Bostonborgar, en það stoppaði okkur ekki.

Jenný sá m.a. ljósmyndasýningu Laura McPhee á myndum frá Idaho, margskonar málverk eftir þekkta bandaríska listamenn og silfurmuni eftir Paul Revere.

Við hin byrjuðum reyndar í gleraugnaverslun til að láta laga gleraugun mín, þar sem Tómas hafði rifið annan nefpúðann af þeim. Að því loknu fórum við með lyftu upp á 50 hæð á háhýsi sem ég kann ekki að nefna, en þaðan er mikið útsýni yfir Boston. Að útsýnisferð lokinni og hádegisverði fórum við svo aftur á hótelið til að sækja bílinn með viðkomu á Ben&Jerry’s. Jenný hitti okkur við bílinn um 3pm og við keyrðum sem leið lá í átt til Cape Cod. Fyrsta rigning ferðalagsins leit nú dagsins ljós.

Ferðin þangað sóttist ekki vel. Umferðin gekk með ólíkindum hægt langleiðina út á höfðann. Við komumst þú fyrir rest á leiðarenda og komum okkur fyrir á American Best Value Inn. Það verður að segjast að gistirýmið hér er í ögn öðrum gæðaflokki en Radisson. Þá er hér enginn nettenging sem þýðir að færslurnar fyrir Cape Cod munu ekki verða birtar fyrr en eftir að dvöl hér lýkur.

Eftir að við komum til Hyannis, fórum við í stuttan göngutúr og borðuðum saman á litlum ítölskum veitingastað áður en allir fóru í ró,

E.s. Það er gaman að segja frá því, hugsanlega í annað sinn, að þegar ég og Jenný fórum á Interrail 1998, var listasýning í Zurich í Sviss sem var um margt merkileg. Sýningin fólst í því að listamönnum á svæðinu og e.t.v. víðar var fengið það verkefni að skreyta eina kú, sem yrði til sýnis í borginni fram á haust. Um haustið 1998 voru kýrnar í Zurich síðan boðnar upp til styrktar góðu málefni.

Þessi listasýning hefur verið endurtekin víða síðan þá. Nú í sumar er slík kúasýning í Bostonborg og rifjaði hún upp góðar minningar þó kýrnar væru ekki þær sömu.