Hyannis, Ma (Cape Cod)
Dagurinn hófst með fábrotnum morgunverði hér á hótelinu og síðan fór Jenný að þvo þvott meðan við hin settumst og horfðum á Portúgal-Mexíkó í sjónvarpinu, áhuginn á leiknum reyndar mismikill. Þegar Jenný kom til baka var leik lokið og við héldum á ströndina, með viðkomu á lítt spennandi veitingastað hér við Main Street Hyannis, eftir að okkur hafði mistekist að endurnýja birgðir okkar af barnamat og þurrmjólk fyrir Tómas Inga.
Við náðum á ströndina rétt um 2.30pm þegar flestir gestana voru um það bil að fara. Við létum það ekki á okkur fá og stöldruðum við í rúma klukkustund, grófum Tómas í sandinn og hlupum í Atlantshafið. Við héldum síðan heim á leið, fengum okkur að borða um 4.30pm og fundum loks matvöruverslun sem hægt var að versla í.
Eftir að við komum aftur á hótelið skelltum við okkur öll í sund, í þægilega heita innilaug hótelsins áður en við héldum í bíltúr austur eftir Cape Cod. Við suð-austurenda höfðans, í bænum Chatham, hlupum við út á strönd og Anna lék sér við öldurnar, þrátt fyrir að það væri byrjað að rökkva og orðið nokkuð svalt. Við komum síðan við í ísbúð á heimleiðinni og nú rétt um 10.30pm eru allir sofnaðir eftir viðburðaríkan dag.