Heimsókn á heilsugæslu (dagur 8)

2210

Hyannis, Ma (Cape Cod)

Við erum enn stödd í Hyannis en í dag var stefnan sett á Provincetown sem er nyrst á Þorskhöfða hér í BNA. Eftir morgunmat héldum við sem leið lá út á veg 6A sem liggur samsíða aðalvegi 6 upp eftir höfðanum. Vegurinn sem við völdum er gamli aðalvegurinn í norður og þykir ein fegursta akstursleið landsins (Jenný er samt ekki alveg viss um það). Við stoppuðum á skemmtilegum veitingastað á leiðinni og við það vaknaði Tómas. Þegar við komum inn á veitingastaðinn 11:30am sáum við að Tómas var rauður í kringum hægra augað, var með útbrot upp á höfuðið og leið augsýnilega mjög illa, var ókyrr og nuddaði augað í sífellu. Við kláruðum að borða í snatri og settumst upp í bíl, Jenný í aftursætinu hjá krökkunum til að fylgjast með drengnum. Við ákváðum þessu næst að keyra áfram en stoppa strax og við myndum sjá heilsugæslu og láta kíkja á strákinn.
Við ökum síðan áfram inn í bæinn Orleans og eitthvað dró úr einkennum á Tómasi, en enn var þó kringum augað nokkuð rautt, því stöðvuðum við hjá heilsugæslu bæjarins, tilkynntum komu okkar og fengum okkur sæti á biðstofunni. Eftir nokkra bið kom hjúkrunarfræðingur, bauð okkur í skoðunarherbergi, vigtaði Tómas og þóttist sjá roðann við auga Tómasar en útbrotinn reyndust horfinn. Við vorum síðan aftur send á biðstofuna. Þar vorum við kölluð upp á ný og nú hittum við lækni sem þóttist ekki einu sinni sjá roðann en bauð okkur hins vegar að skoða eitthvað annað sem væri hugsanlega að Tómasi. Enda voru útbrot og roði því sem næst með öllu horfinn og það sem meira er, Tómasi þótti nú svo sniðugt að vera hraustur í læknisskoðun að hann hló að foreldrum sínum og áhyggjum þeirra með lækninum. Læknisskoðunin á Cape Cod kostaði ekki 75 aura eins og í Smálöndum Svíþjóðar heldur $65, þrátt fyrir að læknirinn gerði ekki annað en að hlæja með Tómasi. Vonandi fáum við heimsóknina samt endurgreidda hjá tryggingafélaginu okkar hér í BNA.
Að þessari heimsókn lokinni héldum við för okkar áfram og eftir því sem norðar dró fjölgaði regnbogafánunum á hótelum og veitingastöðum, enda líta íbúar Provincetown á sig sem víðsýna og bjóða alla velkomna í bæinn sinn. Það var enda sýnilegt í miðbænum, þegar við gengum þar í gegn að frjálslyndið er meira en í Columbus, Ohio alla vega.
Við gengum sem sé um miðbæ Provincetown, fengum okkur ís og héldum svo í tæpa 2 klst á strönd í engri sól og rétt ríflega 21 gráðu hita, sem þykir kalt, enda fáir á ströndinni. Anna lenti í mikilli rimmu við Atlantshafið sem tók upp á því að brjóta niður kökurnar sem hún leitaðist við að byggja og það sem meira var, hafið kældi tærnar hennar mikið að hennar sögn.
Við borðuðum kvöldmat á sjávarréttastað í syðri hluta Provincetown og héldum að því loknu heim á leið með viðkomu á Ben&Jerry’s þar sem Jenný og Anna fengu eftirrétt.