Pílagrímar og kjarnorkukafbátur (dagur 9)

2233

Hyannis, MA – Norwalk CT

Við settum met í brottfararhraða í morgun, vorum komin af stað frá mótelinu á Þorskahöfða kl. 9:45. Það leit út fyrir að það yrði rigning en það rættist úr og varð reyndar mjög heitt þegar leið á daginn. Við keyrðum burt af höfðanum og aðeins til baka í norður til Plymouth bæjar.
Þar er Plimoth Plantation, eftirgerð af fyrsta þorpi pílagrímanna (fyrstu bresku innflytjendanna) frá árinu 1627. Um bæinn ganga uppáklæddir leikarar og hægt er að spyrja þá um lífið í bænum. Þarna voru margar skemmtilegar persónur. Á sama stað er einnig eftirlíking af híbýlum frumbyggja.

Við héldum svo eftir þjóðvegi 44 (ekki hraðbraut) í átt til Providence í fylkinu Rhode Island. Einhversstaðar vestarlega í Massachusetts snæddum á Wendy´s og komum við í WalMart til að kaupa sólhatt fyrir Önnu, en hún týndi bleiku Gap derhúfunni sinni einhvers staðar í 17. aldar þorpinu. Síðan brunuðum við í gegnum Rhode Island á hraðbraut 95 og inní Conneticut fylki. Við beygðum aðeins útaf hraðbrautinni og keyrðum í gegnum Mystic, sem er lítill sætur bær aðallega þekktur sem sögusvið myndarinnar Mystic Pizza. Við keyrðum einmitt framhjá þeim merka pizzastað. Þaðan fórum við til smábæjarins Groton þar sem Nautilus, fyrsti kjarnorkuknúni kafbátur Bandaríkjahers er til sýnis. Við komum aðeins hálftíma fyrir lokun en náðum að labba sýningarhringinn í kafbátnum.

Þegar hér var komið sögu voru flestir orðnir svangir og þreyttir og við keyrðum eftir hraðbrautinni í leit að einhverri matsölubúllu. Eftir nokkrar hremmingar (m.a. með viðkomu í matarlausu Outlet-malli) fengum við okkur bita á gamla góða McDonalds einhversstaðar í smábænum Clinton. Því næst var aftur brunað lengra í vestur átt eftir hraðbraut 95 í gegnum New Haven og í átt að New York borg. Við gistum nú á fínu hóteli í Norwalk, CT (Four Points by Sheraton), um 40 mílur frá NY og komin í nettengingu aftur. Hér komumst við aftur í þvottavél og Tómas Ingi ákvað að nýta sér það, kúkaði uppá bak. Það varð að þvo utanaf bílstólnum og drengurinn var settur í bað.

One thought on “Pílagrímar og kjarnorkukafbátur (dagur 9)”

Lokað er á athugasemdir.