New York borg í rigningu (10. dagur)

2248

Norwalk, CT – South Brunswick, NJ

Við vorum ekkert að flýta okkur af hótelinu í morgun, enda þreytt eftir alla keyrsluna í gær. Elli kláraði að þvo og við nutum þess að borða góðan morgunmat í notalegum sal. Við rétt náðum að komast út fyrir tilskildan brottfarartíma, 12 á hádegi. Það var hellirigning en þó rúmlega 20 gráður.

Fyrst á dagskrá var að stoppa í apóteki að kaupa ungbarnamjólk og „eftir-flugna-bit“ áburð. Við Elli erum nefnilega margbitin, líklega af moskito flugum og vorum orðin viðþolslaus af kláða. Sem betur fer virðast börnin hafa sloppið við bit. Við höfum þau grunuð um að hafa sagt við flugurnar: „Nei ekki bíta mig, bráðum koma mamma og pabbi og þau eru miklu stærri og feitari en ég!“

Við heimsóttum mjög skemmtilegt krakkasafn í Norwalk, Stepping Stones Museum for Children. Anna Laufey skemmti sér konunglega við allskyns þrautir og Tómas Ingi fékk að leika sér í sérstöku smábarnaherbergi. Við Anna Laufey vorum t.d. í njósnakafbát að njósna um fiskabúrið í smábarnaherberginu og sáum Tómas Inga og Ella í njósanamyndavélinni.

Eftir safnið lá fyrir aðeins eitt verkefni, að koma okkur inn í New Jersey fylki og finna gistingu þar. Til að komast til New Jersey þarf að fara í gegnum New York fylki og þá kom tvennt til greina: að taka stóran sveig framhjá New York borg til að forðast miðborgarumferðina eða keyra beinustu leið í gegn og eiga á hættu að tefjast í lengri tíma. Þar sem okkur langaði að sjá eitthvað af þessum frægu skýjakjúfum og frelsisstyttuna ákváðum við að taka áhættuna og keyra (þó bara á hraðbrautum) í gegnum borgina. Sem betur fer gekk umferðin vel fyrir sig og við lentum ekki í miklum töfum. Við fórum yfir á Long Island, gegnum Bronx og Brooklyn og yfir á Staten Island en slepptum því að keyra yfir Manhattan. Það var mikil rigning svo skyggni var nú ekki gott en við mæðgur sáum skýjakljúfana og frelsisstyttuna í fjarska. Elli mátti hafa sig allan við við aksturinn og sá því enn minna en við. Almennileg heimsókn til New York borgar bíður betri tíma. Það væri t.d. tilvalið að hitta íslenska vini/þar einhverntíma!?!

Þegar við komum inn í New Jersey stoppuðum við í stórri vegasjoppu, fengum okkur snarl og skoðuðum hótel-afsláttarmiðabók sem hefur reynst okkur vel í þessari ferð. Við fengum t.d. Holiday Inn hótelið í Seneca Falls og Four Points hótelið síðustu nótt á góðum afslætti.

Við ókum síðan eftir hótel-afsláttarmiðabókinni inn í mitt New Jersey fylki og eftir fjórar tilraunir til að fá herbergi, þar sem ýmist var full bókað (enda laugardagskvöld) eða „ekkert laust á þessu tilboði, en hægt er að fá herbergi á tvöföldu tilboðsverði án morgunverðar“. Þá ókum við til baka í 7 mílur í átt til New York og fengum herbergi á frábæru hóteli (Courtyard Marriott) í smábænum (sveitinni) South Brunswick á $69, reyndar án morgunverðar. Við Anna Laufey fórum í sund hér á hótelinu sem var mjög gaman.

Því er síðan við að bæta að ég náði mynd af tönninni hans Tómasar Inga (hægt að skoða með því að smella á myndina hér að ofan).

One thought on “New York borg í rigningu (10. dagur)”

  1. Ég er til í að hitta ykkur í New York hvenær sem er. Háir hælar, kokteilar og skart er einmitt eitthvað fyrir mig.

Lokað er á athugasemdir.