Við vöknuðum í morgun upp úr kl. 8:20 og flýttum okkur sem mest við máttum í morgunverð hér á Best Western, sem átti að ljúka kl. 9:00. Við komumst niður í góðum tíma en ekkert borð reyndist laust, enda flestir á seinni skipunum þennan morguninn. Við fengum þó borð að rétt fyrir kl. 9, Jenný og Anna fengu sér á diskana sína en ég skaust upp á herbergi til að sækja vatn, því það var ekkert vatn í boði á hlaðborðinu.
Þegar ég kom niður aftur, var búið að ganga frá öllum mat á hlaðborðinu, m.ö.o. búið að taka beyglurnar sem voru í boði og fara með burt. Ég gerði að sjálfsögðu athugasemd við þessa hröðu þjónustu og náði að sníkja tvær beyglur á disk. Eftir morgunmatinn þar sem Anna borðaði lítið og Tómas því sem næst ekkert, fórum við upp á herbergi og gerðum okkur til í ferð í Six Flags – Great Adventure. Við ákváðum að láta Six Flags – Hurricane Harbour vatnagarðinn óáreittan, enda benti Anna Laufey á að það væri hvort sem er Six Flags vatnagarður í Columbus.
Við héldum síðan af stað af hótelinu rétt upp úr kl. 11, stoppuðum og borðuðum á leiðinni í garðinn og vorum mætt á staðinn um kl. 12:45. Rússibanar með og án vatns, hringekjur og hvers kyns tæki biðu þess að vera prófuð. Eftir 4 klst dagskrá, borðuðum við á ný, fórum á höfrungasýningu og héldum síðan áfram í tækjum í stutta stund.
Um kl. 19:00 fórum við úr garðinum til að hvíla okkur frá stöðugum hávaðanum og tónlistinni og fórum í Premium Outlet Mall, þar sem Anna og Jenný dvöldust um stund í GAP outlet meðan ég og Tómas leituðum og fundum ferðatösku sem hentaði undir ferðarúmið hans og fleira í flugferðinni til Íslands.
Eftir að hafa slakað á í búðum í næstum 2 klst var farið á ný í skemmtigarðinn, aðallega til að sjá flugeldasýningu sem var auglýst við lokun garðsins kl 22:00. Anna notaði tækifærið og fór í nokkur tæki, var m.a. ein í hinu skelfilega Jolly Roger-tæki rétt fyrir kl. 22:00. Þær mæðgur náðu síðan að skreppa saman í Parísarhjólið rétt fyrir lokun, en þegar klukkan var rétt rúmlega 22:00 var ljóst að við höfðum eitthvað misskilið þetta með flugeldasýninguna, hún hófst nefnilega ekki.
Við héldum því í rólegheitunum út úr garðinum, keyptum ís og nammi í nesti og vorum komin út í bíl kl. 22:44. Við keyrðum sem leið lá á hótelið okkar og komum hingað kl. 23:26 og villtumst bara einu sinni á leiðinni. Nú er ró yfir mannskapnum, enn einn ferðadagurinn framundan á morgun og við búin að afgreiða Six Flags-skemmtigarða alla vega þennan mánuðinn.
E.s. Engar myndir voru teknar í dag, þar sem við ákváðum að einbeita okkur að því að hafa fjör en leggja minni áherslu á skrásetningu.
Sæl verið þið.
Spennandi ferðalag. Væri alveg til í að vera með ykkur á þessu ferðalagi.
Við verðum líklega í Leifsstöð á leið til Parísar um það leyti sem þið lendið á fimmtudagsmorgunin.
Kv. Nína og co
Ég man eftir að hafa farið í Parísarhjól, kannski Þórir rifji upp þá ferð með ykkur seinna.
Frænkan
Þórir sagði mér að þið hefðuð eitthvað verið að velta fyrir ykkur varðandi svona bílstóla-kerrudæmi, við erum alveg til að versla slíkt af ykkur enda vantar okkur stól og kerru. Okkur vantar reyndar líka nýjan bíl því tveggja dyra sportbíll hentar víst ekki til krílaflutninga.
Jæja elskurnar
Mikið er nú gaman að lesa ferðasöguna ykkar og sjá að allt hefur gengið vel. Við hlökkum auðvitað mikið til að sjá ykkkur þó við förum af vettvangi daginn eftir heimkomuna!
Anna amma
Gaman að fylgjast með ævintýrum í ameríku og ferðasögunni. Ferðalagið minnir okkur á jólafrí árið 2000 þegar við ókum rúmlega 4000km um vesturströnd BNA. Hafið það gott á Íslandinu góða. Bestu kveðjur frá Cardiff.