Komin til Baltimore

Jæja, þá erum við komin aftur til BNA. Flugið gekk nokkuð vel. Við lentum auðvitað í miklum röðum á flugvellinum. Fyrst var klukkutíma bið við innritun og svo var annar klukkutími í röð við vegabréfa eftirlit og öryggistékk áður en við fórum útí vél. Við fengum að hafa allan barnamatinn (mjólk, mauk og graut) en þurftum þó að sýna varninginn nokkrum sinnum. T.d. gleymdi ég að gefa upp mjólkurblöndu sem Tómas Ingi átti í dós og hún fannst við gegnumlýsingu.
Við fengum þó að halda henni. (Veit ekki hvort það hafði eitthvað að segja að tveir varðanna höfðu verið í flokki hjá Ella í Vatnaskógi 🙂 ) Ég hef bara aldrei séð aðra eins gæslu á Keflavíkurflugvelli.

Vélinni seinkaði um klukkutíma, líklega bara nokkuð gott miðað við aðstæður. Anna Laufey stóð sig alveg eins og hetja og kvartaði aldrei. Hún sat næstum allan tímann með iPod-inn og söng af innlifun með Latabæjardisknum frá Bryndísi Erlu og co. (Takk Bryndís!). Tómasi Inga fannst þó ekkert gaman í vélinni. Við reyndum eins og við gátum að dreifa huga hans með alskyns dóti, en hvert og eitt dugði skammt. Hann svaf líklega í rúman klukkutíma af sex tíma flugi, og drakk einhver ósköp. Öll dýrmæta mjólkin kláraðist en við fengum þó meira hjá flugfreyjunum. Það var líka eins og að sleppa út kálfi að vori þegar við komum út úr vélinni. Tómas Ingi skreið útum allan biðsalinn, snérist í hringi og skrækti af hamingju.

Við tókum hótelskutlu inná hótel og Elli fór og náði í nætur snarl um kl 9:30 (1:30 að íslenskum tíma). Þá kom í ljós að bíllinn var rafmagnslaus – en hann var þó á sínum stað! Hann fékk start og reddaði skyndibitanum en nú í morgun kom í ljós að hann var aftur orðinn rafmagnslaus, líklega ekki látinn ganga nógu lengi í gærkvöldi. En nú er verið að redda starti og við komin í ferðastellingar og klukkan ekki einu sinni orðin átta (TI vaknaði kl. 5:30, sem reyndar er nokkuð gott því það er 9:30 á Íslandi). Við stefnum á að keyra alla leið til Columbus í dag.

2 thoughts on “Komin til Baltimore”

  1. Gaman að diskurinn vakti lukku og ekki verra að Íþróttaálfurinn og co. skyldu bjarga flugferðinni.

Lokað er á athugasemdir.