Stöðvuð af lögreglunni

Það hlaut svo sem að koma að því að eitthvert okkar útlendinganna lenti í lögreglunni hér í Bexley. Jenný fór snemma í morgun í skólann til að læra og upp úr hádegi fór ég síðan í gönguferð með börnin, Tómas í kerrunni og Önnu Laufeyju á hjólinu.
Rétt eftir að við fórum yfir Drexel stöðvaði lögreglubíll hjá mér og spurði hvort Anna væri á mínum vegum en hún var svona 50metra fyrir framan mig. Ég játaði því og hann sagði mér að „he needed to give her a ticket“. Ég ákvað að láta á engu bera, þó mér þætti reyndar Anna helst til ung til að lenda í löggunni. Ég og löggan kölluðum svo á Önnu svo hún gæti rætt við lögreglumanninn.
Þegar Anna svo kom tók Officer Johnson upp miða og spurði Önnu að nafni, skrifaði það á miðann, merkti í einhvern kassa og afhenti Önnu.
Hann útskýrði síðan að þar sem Anna væri dugleg stúlka og væri með hjálm, þá ætti hún inni ís á Johnson’s Ice Cream hér í Bexley. En lögreglan væri með átak í gangi til að kenna börnunum að lögreglan væri góð og vildi hjálpa.