Í dag hófst formlega dagskrá fyrir nýnema í Trinity Lutheran Seminary. Helgihald, samhristiverkefni af ýmsum toga, umræður um námslán, viðbrigði við að fara úr vinnu í nám og námsuppbyggingu voru á meðal þess sem beið mín í skólanum í morgun. Ég fékk einnig aðgang að forláta pósthólfi með talnalás sem ég held að hljóti að hafa fylgt skólanum allt frá stofnum 1830. Fyrst á að snúa nokkra hringi, síðan að velja tölu, snúa til hægri einn og hálfan hring og velja nýja tölu svo til baka til vinstri á þriðju töluna, án þess þó að fara yfir töluna sem ég valdi nr. tvö.
En þetta var ekki það eina sem gerðist í dag. Tómas fór í fyrsta skiptið í leikskólann, reyndar gleymdum við rafhlöðunni í myndavélina svo engar myndir náðust af þessum merka viðburði. Við hjónin fórum í viðtal hjá Mark Wilder sem heldur utan um deildina hans Tómasar. Þar fylltum við út mikið magn af pappírum. Reyndar höfðum við fyllt ýmislegt út heima, en það bætist vel við. Tómas undi sér vel og þegar pappírsvinnunni var lokið heimsóttum við „stofuna“ hans, en leikskólanum er skipt í nokkrar deildir, hverri deild er skipt í nokkrar stofur og hver stofa hefur sér svefnaðstöðu og stofan hans Tómasar hefur að auki sér eldhús og sér útisvæði með tartanundirlagi.
Alls eru 300+ börn á leikskólanum, á deildinni hans Tómasar eru um 90 börn, en í stofunni hans eru þau 10 á aldrinum 10-18 mánaða. Hjá þessum 10 börnum eru þrír menntaðir leikskólakennarar og tveir aðstoðarmenn. Reyndar skipta þau á milli sín viðveru frá kl. 6-18. Þegar við komum voru þannig aðeins tveir á vakt, enda börnin ekki nema 5 í stofunni. Þannig að það var rétt tæplega einn starfsmaður á tvö börn.
Okkur leist mjög vel á aðstæður og Tómas virtist mjög sáttur og hafði ekki mikinn áhuga á að koma í fangið á mömmu sinni meðan hann dvaldi í stofunni. Hann mótmælti þó ekki þegar við fórum út, en sýndi öllu mikinn áhuga sem hann sá. Næst fer Tómas í leikskólann á mánudaginn með mömmu sinni og hefst þá aðlögun formlega.
Anna Laufey var líka í „action“ í dag, en hún fór á fyrstu tennisæfinguna sína eftir skóla. Fjölskyldan er í miklu íþróttaátaki þessa dagana og hafa þær mægður skráð sig á tennisnámskeið. Anna mun æfa einu sinni í viku í 8 vikur og eins Jenný, þó ekki á sama tíma. Ég á allt eins von á því að Jenný skrifi tennisfærslu hér síðar.
Núna er Jenný á makasamkomu á vegum Trinity Lutheran Seminary, en í tengslum við innleiðinguna mína í námið hér var mökum nemenda boðið upp á dagskrá í skólanum í kvöld.
Hvað er tartanundirlag Elli minn?
Mér finnst þessi makasamkoma alveg dásamlega skemmtilegt fyrirbæri og vil gjarnan heyra meira út á hvað hún gengur. En er tennis ekki stórhættuleg íþrótt?
Kveðja
Amma í Eyktarhæð
Tartan er efni sem er m.a. notað á hlaupabrautir. Ég veit ekki hvort til er annað orð fyrir tartan. Enda passar það vel í íslensku, beygist eins og Kjartan.