Go CAP

Þar sem Jenný er í Q1 prófinu í allan dag, þá ákvað ég að brjóta upp daginn með því að fara með krakkana út á bókasafnið í Bexley. Þar er leikhorn fyrir smábörn og Anna gat valið sér bækur.
Á leiðinni út á safn, sá ég að mikil dagskrá var í/við Capital University.
Eftir að hafa verið á bókasafninu nokkra stund ákváðum við því að fara og horfa á American Football-lið Capital keppa við Marietta College. Við mættum nokkuð seint, enda varð skýfall meðan við gengum nokkra mínútna leið að vellinum.
Ég borgaði $1 fyrir miða á leikinn og síðan settumst við, ég, Anna og Tómas upp í stúku og horfðum af athygli. Gamli maðurinn fyrir framan okkur pikkaði í mig og sagði mér að hlauparinn í CAP-liðinu sem þá hafði nýverið náð 36 jördum væri barnabarnið sitt og Tómas klappaði af kappi en á stundum fyrir Marietta liðinu, enda var hann bara að reyna að vera með. Önnu fannst merkilegast þegar einn sparkari CAP skoraði vallarmark og boltinn flaug upp á þakið á Bexley Library, sem er í næsta nágrenni við völlinn.
Eftir að hafa verið á vellinum í nærri klukkutíma, þá yfirgáfum við svæðið í hálfleik, fórum á Graeter’s Ice Cream og héldum svo heim.