Önnu Laufeyju fannst dagurinn í gær verulega hræðilegur en hann byrjaði samt ágætlega. Allir fóru í skólann í góðu veðri og allt leit vel út. Anna kom úr skólanum um kl. 15:30 og ég fór með henni í tennis sem hófst kl. 16:00. Tennisæfingin gekk vel framan af og kl. 16:30 sagði tenniskennarinn krökkunum að fara og fá sér vatn. Anna og krakkarnir gengu af tennisvellinum og það er óhætt að segja að þau hafi fengið vatn. Himnarnir opnuðust, við heyrðum í þrumum í fjarska, tenniskennarinn hrópaði að tíminn yrði kláraður seinna og hljóp inn í bíl. Ég og Anna flýttum okkur á hjólin okkar og reyndum að hjóla eins hratt og við gátum heim.
Þegar heim var komið, sátum við hundblaut í sófanum þegar Jenný kom heim með Tómas og hafði sloppið að mestu enda á bíl. Það var ekki grillveður í gær, svo Jenný skrapp á McD og keypti kvöldmatinn og pylsurnar bíða því betri tíma.
Þegar við höfðum lokið við að borða, fór rafmagnið af húsinu og skömmu síðar fóru hvirfilbylssírenurnar í gang og bætust við hávaðann af þrumum og byljandi rigningunni. Við gáfum okkur svolítinn tíma til að ákveða hvort við færum niður í kjallara, en þar sem Anna var fremur smeyk enduðum við þar fyrir rest. Við fórum upp þegar sírenurnar hættu, ég leitaði frétta hjá nágrönnunum, enda virkaði útvarpið okkar ekki. Rafmagnið kom ekki aftur, Tómas fór upp að sofa og upp úr kl. 20:00 fór ég með Önnu upp og við fórum að sofa, enda lítt spennandi að vaka í brakandi húsi í vondu veðri án rafmagns. Við sofnuðum bæði fyrir kl 21 og Jenný sagði mér í morgun að rafmagnið hefði komist á fljótlega eftir það.
Í fréttum nú í kvöld voru síðan fregnir af miklum flóðum í gærkvöldi og einhvers staðar í mið-Ohio voru 4-5 cm breið högl sem komu af himnum ofan og skemmdu þónokkuð af bílum.
En þetta er ekki svona oft á ári er okkur sagt og því bíðum við „ekki-spennt“ þangað til næst.