Nú er fyrsta misserið mitt búið í skólanum. Ég á reyndar eftir að gera leiðréttingar á einni ritgerð í Gamla testamentisfræðum, þar sem kennaranum fannst vanta nokkuð upp á upplýsingar um forsendur túlkunar nokkurra Exodus lesenda. En skilafrestur er á mánudaginn. Á mánudaginn hefst líka interim-önnin í skólanum en það er 3 vikna önn, þar sem boðið er upp á hvers kyns 3 eininga námskeið, oft utan skólans.
Ég fer t.d. til New Orleans, hjálpa til við uppbyggingarstarf og fæ fræðslu um viðbragðsáætlanir og vinnubrögð í tengslum við hamfarir. Brottför er á miðvikudaginn, en á mánudag og þriðjudag verð ég á fyrirlestrum hér í Bexley. Til að undirbúa mig fyrir ferðina þurfti ég að fá stífkrampasprautu og ég gerði það í morgun.
Annars er Anna amma að koma á mánudagskvöld og verður hjá Jennýju og krökkunum í rúma viku meðan ég er í burtu og Jenný er að undirbúa sig fyrir próf.
Annars er fátt að frétta héðan frá Bexleybæ, enn er verið að byggja nýja húsið við hliðina, þannig að veitingastaðurinn sem átti að opna í byrjum október, verður vart opnaður fyrr en eftir jól. Þar verður líka evrópskt bakarí, eitt af örfáum í mið-Ohio en miðað við framkvæmdatíma og áætlanir hér, þá er hugsanlega ekki von á því fyrr en með komandi sumri, þó opnun hafi verið auglýst í febrúar 2007.