Nú halda hliðin ekki lengur

Þegar við komum heim frá Íslandi í haust varð okkur ljóst að hreyfigeta Tómasar Inga hafði stóraukist síðan við yfirgáfum íbúðina. Það leið t.d. ekki nema vika þar til Tómas var farinn að labba um allt. Við brugðumst við þessu með því að setja upp hlið á tveimur stöðum á neðri hæðinni, eitt svo hann fari ekki í stigann og eitt til að loka af eldhúsið.
Hliðin eru nokkuð þung og það þarf að lyfta þeim aðeins til að opna þau. Tómas er reyndar orðinn ansi lúnkinn við að fara upp og niður stigann en hliðin létta undir með foreldrunum svo við þurfum ekki að hafa stöðugt augun á honum og elta hann út um allt.

Undanfarið hefur prinsinn okkar stækkað og er orðinn sterkari. Hann prílar uppá allt sem hann sér, skemmtilegast er að príla uppá eldhússtóla og þaðan uppá eldhúsborð, mömmu hans til mikillar skelfingar. Nú eru eldússtólarnir teknir frá borðinu (aldrei má maður neitt !).

Í gærkvöldi stóð ég inní eldhúsi að sjóða súpu, Tómas Ingi stóð hinumegin við hliðið og hristi það, eins og hann gerir oft þegar hann er svangur. Ég reyndi bara að spjalla við hann og segja honum að maturinn væri bráðum tilbúin. En næst þegar ég lít við stendur Tómas mín megin við hliðið og er að loka því! Hann lítur svo á mig pínulítið undirleitur en skælbrosandi og óskaplega stoltur af afrekinu.

2 thoughts on “Nú halda hliðin ekki lengur”

  1. Sko minn kall!

    Það hlaut að koma að þessu, drengurinn er nautsterkur og viljinn ekki minni! En bros og sjarmi bjarga nú miklu. Nú er bara að vita hvort hægt er að herða á festingunni á hliðinu svo það haldi eða hvort sá stuttu þarf að læra á veröldina „by doing“! Og mamma og pabbi verða þá bara að þola það.

    Bestu kveðjur

    Anna amma

  2. Það er eins gott að kappinn er í góðri fjarlægð frá Benna frænda svo hann kenni honum ekki trixin.

Lokað er á athugasemdir.