Það er óhætt að segja að skólinn hafi byrjað af krafti hjá mér nú í janúar. Ég er áfram í fjórum kúrsum hér í Trinity líkt og fyrir jól, en álagið er allt annað og meira. Námskeiðin fyrir jól voru enda fremur fyrirsjáanleg, Kirkjusaga, Gamla testamentisfræði, inngangsfræði guðfræðinnar (Trú í leit að svörum) og sjálfsmynd kirkjustarfsmanns. Allt efni sem ég hef gluggað í á BA-stigi og kannaðist við. Við fyrstu sýn gæti það sama virst eiga við nú á þessu misseri, ég er í kennslufræðum, helgisiðafræðum, trúfræði og síðan kynningu á trúarbrögðum heims.
Í sjálfu sér er fátt þarna sem ætti að reyna á, ég lærði trúkennslufræði og uppeldisfræði sálarlífsins hjá Pétri og Sigurði Pálssyni í HÍ, embættisgjörðina tók ég hjá Einari Sigurbjörnssyni, trúfræði 1 tók ég hjá Arnfríði og trúarbragðafræði hef ég tekið hjá Clarence Glad.
En það er öðru nær, kennslufræðin byrjar ekki á vangaveltum um James Fowler og félaga. Við erum látin kenna hvort öðru, gagnrýna kennsluplön og aðferðir hvors annars og annast æfingakennslu út í söfnuðum og það er ennþá bara janúar (ég reyndar kenni efni sem ég skrifaði fyrir Biskupsstofu 2001, meðan við bjuggum í Danmörku fyrir unglinga í kirkjunni sem við höfum stundum farið í, þannig að ég þekki ágætlega efnið og aldurshópinn).
Embættisgjörðin eða helgisiðafræðin eru ekki rólegheitafræði, tvö stutt verkefni í hverri viku, greining á helgihaldsreynslu sem börn og unglingar, æfingar, gagnrýni og umræður um hvernig við berum okkur að í helgihaldi, gífurlega mikill lestur á kennimönnum á þessu sviði, sem eiga það sameiginlegt að telja sig eina vita allt og svo mætti lengi telja.
Trúfræðin byrjar einnig af krafti, ritgerð um mótun eigin guðfræði var verkefni janúarmánaðar. Ásamt stuttri greinargerð um skilning okkar á kenningum tveggja guðfræðinga á kennivaldi Biblíunnar, þar er einnig mikill lestur og áhersla á guðfræðinga á seinnihluta 20. og 21. aldarinnar, sem þýðir breyttar áherslur frá Uppsalaguðfræðinni frá miðri síðustu öld sem var ráðandi í BA-náminu. Reyndar þekki ég eitthvað af höfundunum sem við lesum, enda kenndi Arnfríður mér trúfræði I á Íslandi og hún lærði sjálf í Chicago.
Trúarbrögðin eru kennd í katólska prestaskólanum hér í Columbus. Nemendur mæta því margir í prestaskyrtunum sínum (alla vega katólikkarnir), eins eru margir að taka kúrsinn úr skóla methódista hér norðan við Columbus, en ég er eini „full-time“ neminn úr Trinity. Áherslan er algjörlega önnur en í yfirlitskúrsinum hjá Clarence. Hér verður skimað yfir fjórar trúarhefðir og áhersla lögð á eitt stórt rannsóknarverkefni þar sem byggt er á samanburðarguðfræði. Námskeiðið var að byrja á mánudaginn, en fyrsta verkefninu, sjálfsskoðun að sjálfsögðu, þarf að skila eftir tvær vikur.
Við þetta bætist að hópurinn sem fór til New Orleans er með kynningu á námskeiðinu í skólanum á morgun. Við sem vorum í Louisiana höfum verið óþreytandi í því að minna á ástandið þar niðurfrá, höfum kynnt í smærri hópum og kennslustofum hvað var/er í gangi í „besta“ landi í heimi. Á morgun er síðan kvöldverður á okkar vegum, með uppboði, söfnun fyrir LDR (Lutheran Disaster Relief) og kynningum á ýmsum hliðum ástandsins. Síðustu daga hefur skólinn verið „skreyttur“ af einstaklingum í hópnum, settar hafa verið upp flóðlínur á veggi skólans, sett merkingar á veggina um hvort látnir hafa fundist (merkingar sem enn eru á allflestum húsum í New Orleans, 17 mánuðum eftir atburðina) og hengd upp á salerni skólans valdar frásagnir af bloggsíðu námskeiðsins. Allt til að kalla eftir umræðu og vangaveltum um viðbrögð við stórslysum. Ég er meðan ég skrifa þetta að útbúa DVD-diska með kynningarefni sem notað verður á morgun.
Það er um margt merkilegt hvað praksis er meira áberandi hér en heima, enda um seminary að ræða en ekki háskóladeild. Því sem næst allir sem eru í námi með mér eru að læra til prests og eru samhliða náminu í samvinnu við „candidacy commitee“ sem gefur þeim heimild til að hefja nám til M.Div. gráðu með preststarf að markmiði. Nefndin fylgist síðan með nemunum með reglulegu millibili og getur afturkallað heimildina eða sett hana í bið. Ef nemar fá ekki heimild til náms, heimildin er dregin til baka eða sett á „hold“, sem gerist öðru hvoru, þá er hægt að fara í MTS nám sem veitir enginn réttindi. Námið mitt MA-LM er hins vegar farvegur fyrir einstaklinga sem hyggjast sérhæfa sig innan kirkjunnar en hafa af einhverjum ástæðum ekki áhuga á prestsvígslu, sum þeirra sem eru í sama námi og ég eru samt sem áður í samstarfi við „candidacy commitee“.
Markmið námsins, númer 1, 2 og 3 er því einfaldlega að búa til hæft starfsfólk fyrir kirkjuna sem á og rekur skólann. Þetta er um margt ólíkt guðfræðideildinni heima, því þrátt fyrir allt er þar um akademískt nám að ræða og hugmyndir um eftirlit og eftirfylgd, aðkomu kirkjunnar og praktískt nám, fremur í lausu lofti. Enda erfitt að halda úti sérhæfðum skóla fyrir kirkjuna innan sjálfstæðrar akademískrar stofnunar.
En alla vega, námið er tímafrekt, ég er að gera og læra um hluti sem e.t.v. er ekki nýir í mínum huga, en nálgunin er önnur og umhverfið mjög ólíkt. Áherslan á sjálfsskoðun og sjálfsmat hefur kennt mér gífurlega mikið, hvernig ber ég mig að í helgihaldi, hvers vegna nota ég ákveðnar aðferðir í kennslu. Hvaða hugmyndir hef ég um gagnsemi helgihalds og hvaðan koma þær?
Þessi tímafaktor hefur þýtt að ég hef ekki náð að setjast mikið niður og sinna hrafnabloggi, en hef aðeins skrifað á annála þegar ég hef tengt námið hér við eitthvað heima á Íslandi.