Síðasti skóladagurinn

Síðasti dagur Önnu Laufeyjar í öðrum bekk var í dag. Anna var mætt í skólann kl. 8:30 eins og venjulega. Eftir frímínútur kl 10:30 fóru allir í öðrum bekk ásamt nokkrum foreldrum gangandi í Drexel Theater til að sjá Five Children and IT. Boðið var upp á Sprite og popp með myndinni. Að sýningu lokinni var gengið hátt í 2ja mílna leið til einnar bekkjarsystur Önnu, en þar var boðið upp á leiktæki, pizzur, „dirt cup“ með ormum og rjóma, klaka, vatn, cupcakes, snakk og eitthvað fleira sem ég kann ekki að nefna. Eftir þetta var síðan gengin stuttur spölur í skólann, þar sem þau hvöddu kennarann sinn og fengu einkunnir afhentar. Reyndar átti dagskráin hjá Önnu að halda áfram með afmælisveislu eins bekkjarfélagans eftir skóla, þar sem stefnan var sett á sundlaugargarðinn í Bexley, en vegna veikinda afmælisbarnsins féll sá hluti niður. Tvennir foreldrar komu að máli við mig og fullyrtu að lokadags-dagskráin í Cassingham væri öfgakenndari en í flestum öðrum amerískum barnaskólum. Enda var það svo að á leiðinni heim með Önnu úr skólanum mátti víða sjá hoppkastala og við eitt húsið, þar sem ég veit að krakkarnir í fyrsta bekk komu saman, var uppblásin vatnsrennibraut.
En nú bíður ferð til Íslands Önnu Laufeyjar. En hún, Tómas og Jenný fara í flug á sunnudaginn. Reyndar er Anna að fara í klippingu á morgun, síðan í hádegismatarboð og hugsanlega sundferð með vinkonu sinni, síðan eru íslenskir pabbar í Columbus á leið með eldri börnin sín í dýragarðinn á laugardag, þá er tennisæfing hjá Önnu seinni part laugardags og á sunnudagsmorgun er stefnt á súkkulaðiverksmiðjusafnsheimsókn hjá Hersey’s í Pennsylvaníu. Þá er ónefndur aksturinn til Hersey’s og Baltimore áður en flugið fer og pökkun fyrir ferðalagið. Það eru því ekki miklir rólegheitadagar þessa helgina hér hjá okkur.

One thought on “Síðasti skóladagurinn”

  1. Gott að atburðardagatalið er vel bókað strax frá unga aldri. Sá um þessa verksmiðju í ferðaþætti (10 bestu matarstaðirnir til að heimsækja) og þetta virtist rosa flott.
    Frænkan og frændinn

Lokað er á athugasemdir.