Ísland, Vatnaskógur, Washington, Six Flags America

Eftir rétt um 2 klst seinkun á fluginu frá Baltimore lentum við Anna um kl. 01:00 eftir miðnætti hér í Columbus í gærkvöldi. Við vorum snögg í gegnum flugstöðina og um borð í leigubíl sem keyrði okkur heim. Jenný tók á móti okkur kl. 1:30 við útidyrnar. Þar með lauk skemmtilegu ferðalagi okkar feðgina, þar sem komið var víða við.Það væri hægt að skrifa langa ferðasögu um þessa ævintýraferð, ég gæti skrifað um hellidembu í Washington, deilur um Barbiedúkkukaup á Hard Rock, myndatökur af Lincoln, flutning þjóðsöngsins við opnun Six Flags America garðsins og ótal vatnaskemmtitæki í Six Flags garðinum. Þá væri hægt að skrifa um stelpur í Vatnaskógi, grillveislu hjá Sæla, lúsina sem fannst, brúðkaupstertu Mariu og Friðriks, sundnámskeið og margt margt fleira. Ekki má gleyma leiðsögumanninum sem fannst svo merkilegt að Íslendingar væru í rútunni hans, að hann eyddi löngum tíma í að auglýsa þjónustu Icelandair, ég gæti nefnt ókurteisina sem mætti mér hjá afgreiðslufólki flugrútunnar, sem reyndist síðan bara vera hefðbundin íslensk framkoma.

Nú það er e.t.v. ástæða til að nefna skemmtilegan hóp foringja í Vatnaskógi, ánægjuna af að vinna með frænkum mínum tveimur, frábær samskipti Önnu við Karenu Sif, Aþenu og fjölda annarra krakka sem hún kallar núna vini sína, ég gæti hrósað Microtel hótelinu við BWI, nefnt sölukonurnar sem gáfu Önnu gjafir – önnur í verslun í Kínahverfinu í Washington, hin í gjafavöruverslun við hlið B8 á BWI. En ætli ég láti ekki staðar numið hér og skrifi fremur ritgerð um forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu og siðferðisleg álitamál henni tengd, en hún hefur verið í hvíld síðan ferðin hófst.

Fleiri myndir hér.