Vísindasafns hjólaferð

Fremur en að sitja og ljúka við ritgerð um forgangsröðun í heilbrigðiskerfi með hliðsjón af hugmyndum kristinna siðfræðinga og með útgangspunkti í hvernig greiðslu fyrir þjónustuna er háttað, ritgerð sem ég átti að skila fyrir rúmri viku, þá ákvað ég að fara í hjólreiðaferð með Önnu Laufeyju í dag. Hún var reyndar ekki mjög spennt, enda vön því að hjólreiðaferðir okkar feðgina endi í einhverri vitleysu þar sem við höfum hjólað of langt og höfum ekki orku til að komast til baka.
Við lögðum samt af stað upp úr kl. 11:00, héldum eftir Broad Street, komum við á Wendy’s og borðuðum hádegismat og héldum svo á Vísindasafnið niður í bæ. Þangað vorum við komin rétt um kl. 13 og skoðuðum þar nýja sýningu um teiknimyndagerð. Þegar við vorum á leiðinni út var okkur síðan boðið á sýningu/fræðslustund um veðurfar og ákváðum að staldra við. Við lærðum að andrúmsloft er þungt og vatn er skrýtið, meðan kynnirinn gerði ýmsar tilraunir og útbjó m.a. ský úr heitu vatni og köfnunarefni sem læddist um gólf fyrirlestrasalarins.
Við ákváðum síðan að hjóla frá safninu að eftirlýkingu af skipi Christopher Columbus, en skipið var síðan ekki opið í dag. Við fórum því næst inn á Nationwide Arena svæðið í leit að Ben&Jerry’s ísbúð sem þar var einu sinni, en það var búið að loka henni fyrir fullt og allt. Við enduðum því á Starbucks og fengum okkur smá næringu fyrir hjólaferðina heim, enda áttum við þá líklega um 10 km til Bexley fyrir höndum. Við náðum heim rétt um kl. 17:30, fremur þreytt og dösuð, enda verið á ferðinni í tæpa 6 1/2 klst. Anna er enn sannfærðari enn áður að hjólaferðir okkar endi í vitleysu, en hún fer samt örugglega aftur með mér næst. 🙂