Dagurinn í gær hófst á því að ég, Anna og Tómas fórum á Bob Evans og fengum okkur morgunmat, héldum svo í íþróttavöruverslun til að kaupa knattspyrnuútbúnað á Önnu og fórum síðan saman á knattspyrnuvellina við Easton þar sem Anna keppti með skólasystrum sínum í heiðskýru og frábæru veðri við eitthvert lið sem ég kann enginn skil á. Anna og stelpurnar unnu með glæsibrag 5-2, þar sem Anna var nálægt því að skora með flottu skoti frá jaðri vítateigsins. Eftir leikinn héldum við svo heim á leið þar sem Tómas lagði sig og ég og Anna fórum á Cassingham Carnival Festival, en foreldrafélagið í skólanum hennar Önnu stóð að dagskrá í skólanum með hoppköstulum og margskonar föndri og leikjum. Dagskránni átti að ljúka kl. 17, en þegar við vorum að huga að heimferð um 16:45, fóru skýstrókaviðvörunarbjöllurnar í gang í skólanum. Ég og Anna komum okkur fyrir á gangi skólans með þeim foreldrum sem ákváðu að hlýða ráðleggingum skólastjórans, en einhverjir hlupu einfaldlega með börnin sín út og heim. Eftir 15-20 mínútur með grátandi börnum og spenntum foreldrum kom lögreglukona sem hafði verið að sýna lögreglubíl á hátíðinni og tilkynnti að sést hefði hugsanlegur strókur í Hilliard sem er tæplega 15 mílur vestan við okkur og veðrið ferðaðist í austur á 30 mílna hraða á klst. Við þessi skilaboð ákváðu allir að yfirgefa skólann og flýta sér heim í skjól. Á leiðinni í bílinn vorum við stöðvuð af annarri lögreglu sem sagði okkur að koma okkur í skjól hið skjótasta, enda yfirvofandi hætta. Skýstróksviðvörunarvælan vældi enda stöðugt. Við komumst í bílinn og keyrðum heim á leið og á leiðinni mátti sjá lauf fjúka af trjám og himininn varð dekkri og dekkri. Við sáum einnig að lögreglubílar voru víða að reka skokkara inn í skjól. Þegar við keyrðum inn á bílastæðið heima, ákváðum við að hlaupa inn í skjól í kjallaranum og áttum eiginlega von á að Jenný og Tómas væru þegar farin niður. Það var þó ekki svo, Jenný og Tómas sátu hin rólegustu í sófanum í stofunni og horfðu á Friends á DVD. Ég og Anna reyndum að reka þau niður, skiptum yfir á fréttaútsendingu en öll dagskrá hafði verið rofin, enda ekki á hverjum degi sem skýstrókshætta er í milljón manna borg. Við vorum síðan niðri að kubba í réttar 30 mínútur þar til hættan leið hjá.
Ég fór í heimsókn til Steina í gærkvöldi og þá var aftur heiðskýr himinn, og frábært sumarveður hér í Columbus.