Nú er farið að síga á seinni hluta meistaranámsins míns í leikmannafræðum, en útskrift er eftir 62 daga. Í síðustu viku lauk ég námskeiði um kirkjur í öðrum og þriðja heiminum og hvernig guðfræðiiðkun í Asíu, Suður-Ameríku og Afríku hefur áhrif, og mun hafa aukin áhrif á þróun kirkjunnar á komandi árum. Ég á því einungis eftir að ljúka tveimur námskeiðum, sem eru bæði hálfnuð. Annars vegar er ég að taka námskeið í guðfræðiskóla Methódista sem fjallar um breytingastjórnun í kirkjustarfi, þar sem við skoðum og ræðum strauma og stefnur í kirkjustarfi, ásamt því að skoða söfnuð og fjalla um hvernig og hvort sé hægt að þróa og bæta safnaðarstaf í samræmi við þær stefnur sem við höfum rætt. Hitt námskeiðið sem nú er hálfnað fjallar um sálgæslu og liggur áherslan á hlutverki sálgæslunar í kirkjulegu samhengi. Áhersla námskeiðsins er EKKI praktískar aðferðir heldur öllu fremur skilgreiningar á kirkjunni, þjónustu hennar og verkefni ásamt gagnrýnni umræðu um hvert hlutverk kirkjunnar sé þegar kemur að líkamlegri og andlegri heilsu fólks.
En þetta er ekki forgangsverkefni í næstu viku, enda er ég í fríi ásamt Önnu fram á mánudaginn eftir viku. Reyndar þarf ég að fara í tíma á miðvikudaginn í breytingastjórnun, þar sem vorfríið í methódistaskólanum var í síðustu viku. En annars er þetta allt fremur rólegt núna.