Nú er skólinn minn byrjaður aftur eftir vorfrí. Nú taka við síðustu tveir mánuðir MALM-námsins, sem ættu að vera fremur þægilegir enda er ég aðeins í tveimur námskeiðum, annars vegar Care of Souls og hins vegar Transformational Leadership í MTSO (Methodist Theological School of Ohio). Ég mæti tvisvar í viku í Care of Souls (mán og mið 8:30-9:45) og einu sinni í viku upp í MTSO (mið 14-16:50).
Ég á reyndar einnig eftir að ljúka um 10 klst í vettvangsnámi, sem ég geri ráð fyrir að taka sem skatta- og bótaráðgjafi hjá Lutheran Social Services í tengslum við The Benefit Bank. Ég fór nýlega á námskeið í að hjálpa fólki í að rata í gegnum félagslega kerfið og hluti af hugbúnaðinum sem notaður er nýtist við að ganga frá einföldum skattskýrslum fyrir fjölskyldur sem hafa ekki fjárhagslega burði til að kaupa þjónustuna dýrum dómum. Þessi þjónusta er studd af Ohio-ríki, enda er mjög mikill fjöldi fátækustu íbúanna hér sem vita ekki af/hafa ekki burði til að nálgast þá hjálp sem þeim stendur til boða.
Það tekur rúmlega 2 klst fyrir mig að fara í gegnum eitt „case“ með skjólstæðingi (með skattskýrslugerð) og þegar því er lokið prenta ég út leiðbeiningar og útfylltar umsóknir fyrir mismunandi aðstoð, sem viðkomandi skjólstæðingur þarf svo að fara með ásamt tilheyrandi fylgiskjölum til 3-4 mismunandi þjónustustofnanna og fara í allt að 1 klst viðtal á hverri stofnun þar sem reynt er að tryggja að ekki sé um svindl að ræða. Síðan þarf í einhverjum tilfellum að endurnýja umsóknir árlega, sem þýðir að allt ferlið er endurtekið.
Það er auðvelt að segja að 8 klst pappírsvinna sé ekki svo slæmt til að fá bætur og sjúkratryggingu kostaða af ríkinu, en í flestum tilfellum er hér um einstaklinga að ræða í fullri vinnu eða tveimur, oft einstæðir foreldrar með börn og þess utan eru almenningssamgöngur ekki alltaf hannaðar til að hjálpa fólki að komast á viðkomandi skrifstofur. Þannig fer hálfur dagur í að hitta mig, læra hvað þarf að gera og undirbúa öll eyðublöð. Síðan er óhætt að gera ráð fyrir allt að heilum virkum degi á hverri þjónustustofnun. Ef pappírarnir reynast síðan innihalda villur, þarf að byrja allt upp á nýtt.
Við hefðum átt að biðja þig að hjálpa með skattskýrsluna okkar, vorum alveg lost með hvernig við ættum að skrá erlend hlutabréfakaup.