Heimkoma

P1010096.JPG

Nú er ævintýrum fjölskyldunnar á Íslandi lokið. Reyndar var Jenný bara á Íslandi í viku, en við hin komum heim eftir fjögurra vikna ferð. Heimferðin hjá Ella og börnunum gekk mjög vel, nema að fluginu frá Boston til Columbus seinkaði um 2 klst og þar sem upphaflega áætlunin gerði ráð fyrir 7 tíma bið í Boston, þurftum við að drepa 9 klst bíðandi eftir framhaldsflugi.

Við byrjuðum biðina af krafti, tókum strætó niður á höfn, tökum leigubát (Taxi Boat) til miðborgar Boston, fengum okkur að borða á glæsilegum veitingastað í miðborginni og tókum svo neðanjarðarlestina til baka á flugvallarsvæðið og ferðuðumst með strætó frá lestarstöðinni yfir á Terminal A á Logan. Þetta ferðalag 2-3 klst og við bjuggum okkur undir 3-4 tíma bið á Logan. Við fórum því á barnaleiksvæði sem flugvöllurinn auglýsir um allan völl og er í nýbyggingu út af öryggisvæðinu á Terminal A. Svæðið fyrir börnin er eiginlega það eina sem ekki passar við hugmyndina um að allt sé stórt í Ameríku, enda fremur væskilslegt. Anna og Tómas léku þér samt á svæðinu í rúma klst þrátt fyrir að Anna væri orðin bæði of gömul og stór til að mega leika þar.

Þegar gamanið var búið og þau höfðu prílað margoft á öllu á barnasvæðinu, ákváðum við að fara á veitingastað og uppgötvuðum þá seinkunina á vélinni til Columbus. Eftir það tók síðan við bið sem er ekki í frásögur færandi, enda ekki spennandi að sitja og bíða og bíða og bíða. Reyndar tók Tómas rispu á vellinum og hóf að söngla Obama – Obamla – Obama – Obamla, meðan við feðgar fylgdumst með CNN, en söngurinn hans Tómasar kallaði fram bros hjá sumum samferðamönnum okkar.

En við komumst heim rétt um miðnætti að austurtíma eða 4:00 að íslenskum tíma, rétt um 21,5 klst eftir að ég og Anna vöknuðum um morguninn.

Jenný og börnin áttu síðan góðan dag í dag, en Jenný fór í flug til Boulder, Colorado seinnipartinn og verður fram á miðvikudagskvöld. Við munum reyna að taka lífið rólega fram yfir helgi, en þá fer Tómas í leikskólann og Anna og ég höldum áfram sundæfingum.

One thought on “Heimkoma”

  1. Ég er strax farin að sakna Önnu og Tómasar. Er búin að taka til og þvo öll rúmföt og er svo bara ein að rölta um í kvöld, sumir eru farnir að sofa.
    kveðja
    Alfa

Lokað er á athugasemdir.