Disney skipulag

Í dag gengum við frá bókunum fyrir Disney World um jólin. Við munum gista á Caribbean Beach Resort frá 28. desember-1. janúar og gerum ráð fyrir að vera alls 5 daga í Disneygörðunum, frá morgni 28. desember og fram undir kvöldmat 1. janúar. Ég ákvað einnig að ganga frá kvöldmat á Gamlárskvöld en planið er að vera í Magic Kingdom garðinum þann dag. Þrátt fyrir að aðeins sé tekið við pöntunum 180 daga fram í tímann og nú séu rétt um 140 dagar fram að áramótum þá var allt uppbókað í kvöldverð með Öskubusku í Disney kastalanum sjálfum og eins var ekkert laust í mat með Bangsímon í The Crystal Palace. Reyndar var ekki bara bókað í kvöldverðinn á Gamlársdag á þessum tveimur stöðum, það var heldur ekki hægt að mæta í morgunmat eða hádegismat.

Þjónustufulltrúinn sem ég talaði við og ég held að hljóti að hafa verið einn af jákvæðu fuglunum sem fljúga yfir hausunum á Disney prinsessum, var hins vegar mjög viljugur að aðstoða mig við að finna fínan matsölustað á Gamlársdag og bauð mér að bóka hlaðborð á Disney’s Grand Floridian Resort & Spa sem er víst dýrasta hótelið í Disneyheimi og lofaði mér því að Öskubuska og stjúpsysturnar myndu koma og spjalla við okkur þar. Þjónustufulltrúinn sagði mér einnig að máltíð á þessum veitingastað væri innifalinn í matarplaninu sem ég bókaði með Caribbean Beach hótelinu og aðgöngumiðunum í garðana.

Þá gaf þjónustufulltrúinn í skin að það væri betra fyrir okkur að bóka sem fyrst aðra kvöldverði í ferðinni sem allra fyrst, til að fá sæti á þeim veitingastöðum sem við óskum okkur. Ég ákvað samt að bíða með það, enda hef ég ekki hugmynd um hvaða veitingastaðir standa til boða.

3 thoughts on “Disney skipulag”

  1. Þið eruð alltaf velkomin í sviðin hjá okkur á gamlárskvöld klukkan 19/30
    engin breyting á þeirri hefð.
    Svartur barnasokkur fannst á þvottahúsgólfinu fyrir nokkrum dögum mun vera sami sokkurinn og var ekki týndur.
    kveðja
    Alfa

  2. Þetta verður svooo gaman, sérstaklega hjá Önnu Laufeyju hún er akkúrat á rétta aldrinum. Pantið borð með fyrirvara, við höfum lent í veseni með að fá borð þar sem við höfum ekki pantað fyrirfram.
    Munið svo að taka smá aukaföt þar sem þið blotnið vel í sumum tækjunum.
    Kveðja
    FlórídaBenni

  3. Ég fór í það núna áðan að ganga frá borðapöntunum fyrir ferðalagið. Það eru fjórar eða fimm máltíðir á alvöru veitingastöðum inn í planinu okkar og ég hef nú þegar pantað að borða hádegismat með Little Einsteins og félögum úr Playhouse Disney í Disney Studio garðinum sunnudaginn 28. Við förum í Animal Kingdom garðinn 29. og borðum kvöldmat á Rainforest Café. 30. desember verðum við í Epcot og borðum kvöldmat í norskri höll ásamt Disneyprinsessunum öllum. Morgunverðurinn á Gamlársdag verður borðaður með Bangsímon í Magic Kingdom garðinum og kvöldmaturinn verður snæddur með Öskubusku.
    Ég hugsa að við hjón verðum orðin fremur þreytt á „fólki í búningum“ þegar þessu öllu lýkur.

Lokað er á athugasemdir.