Komin niður á jafnsléttu


Daginn eftir fundinn langa 08/08/08 í rannsóknarverkefninu mínu byrjaði námskeið um Veðurfar og tölfræði . Námskeiðið var haldið í húsakynnum NCAR, stóð í 5 daga og var mjög stíft. Það var dagskrá frá 8 til 5 alla daga og flesta daga voru langir fyrirlestrar. Ég lærði mjög mikið en ég er hrædd um að ennþá meira hafi farið framhjá mér, enda var lítill tími til að vinna úr því efni sem var farið yfir.

Þátttakendur voru doktorsnemar, post-docs og nokkrir ungir prófessorar úr háskólum víða að í Bandaríkjunum og Kanada og ein kom alla leið frá Ástralíu. Þetta var mjög góður hópur sem náði vel saman. Mér þótti það líka þægileg tilbreyting að vera nálægt meðalaldri hópsins :-).

Við fengum góðan skammt af „spatial“ tölfræði og fengum að heyra frá veðurfarsfræðingum og tölvufólki. Það var gaman að heyra sjónarmið fólks úr öðrum fræðigreinum og ljóst er að það er þörf á meiri samvinnu milli tölfræðinga og veðurfarsfræðinga. Það var líka mjög athyglisvert að fá innsýn í súpertölvukost stofnunarinnar.

Það er alveg gríðarlega fallegt þarna í Boulder enda liggur bærinn við rætur klettafjallanna og stutt í þjóðgarðinn. Einn af hápunktum dvalarinnar var vettvangsferð uppí fjöllin þar sem við skoðuðum nokkrar mælistöðvar. Við fórum uppí meira 3000 metra hæð og löbbðuðum í skóginum milli mælistöðva og sáum meðal annars stóran snæhéra. Fleiri myndir frá ferðinni má finna hér.

2 thoughts on “Komin niður á jafnsléttu”

  1. Jenný mín

    Þetta hefur greinilega verið mjög gaman og örugglega gagnlegt líka. Það tekur stundum langan tíma fyrir heilasellurnar að vinna úr slíkri upplifun! (

    En mig langar að vita hvort veðurfarsfræðingur er annað en veðurfræðingur.

    Bestu kveðjur

    Mamma

  2. Ég veit reyndar ekki hvort „veðurfarsfræðingur“ er notað í íslensku en í ensku er gerður greinarmunur á þeim sem fást við veður (weather) og þeim sem fást við veðurfar (climate). Veðurfræðingar eru kallaðir „meteorologists“ en hinir eru kallaðir „climatologists“.

Lokað er á athugasemdir.