Þegar von var á leyfunum af fellibylnum Ike hingað til Ohio á sunnudaginn þá var varað við sterkum vindi. Ég glotti nú bara útí annað því það var bara spáð 12-18 m/s, en reyndar allt að 28m/s í vindhviðum. Ég var meira að segja svolítið spennt að fá loksins almennilegt rok! Ég er ekkert spennt lengur og glottið er löngu farið. Vindurinn feykti niður rafmagnsstaurum og trjám og oft féllu trén á rafmagnslínur og niðurstaðan er rafmagnsleysi í nærri tvo sólarhringa.
Það var skrýtið að keyra um borgina í gær. Heilu og hálfu trén liggja eins og hráviði út um allt og greinar og græn lauf þekja göturnar. Í næstu götu við okkur var risastórt tré klofið í tvennt og var við það að hrynja og því var götunni lokað. Flest umferðarljós voru óvirk og þá gildir stöðvunarskylda í allar áttir og það er farið til skiptis yfir gatnamótin. Það er í raun alveg ótrúlegt hvað þetta virkar og flestir ökumenn fara eftir reglunum, en þetta hægir auðvitað töluvert á umferð.
Það er þó ekki allstaðar rafmagnslaust. Sumar búðir virðast hafa vararafstöðvar og skólinn minn er með sína eigin spennistöð rafstöð og þar er allt í fullum gangi. Ég hef því getað unnið þessa tvo daga þó einbeytingin sé nú kannski ekki eins og venjulega. Leikskólinn hans Tómasar er líka opinn. Anna Laufey hefur hins vegar ekki farið í skólann í tvo daga og finnst það æðislegt, enda er veðrið gott og allir krakkarnir úti að leika. Það hrundu niður nokkrar stórar greinar í garðinum okkar og krakkarnir söfnuðu þeim saman og bjuggu til hús.
Það er sem betur fer fínt veður núna. Veðrinu fylgdi hitaskil svo það er ekki lengur þessi kæfandi hiti sem var um helgina heldur bara þægilegar 20°C og svalt á morgnanna. Ég byði ekki í að hafa yfir 30 stiga hita án loftkælingar. Við erum búin að henda töluvert af mjólkurvörum og rjómaís 🙁 Við áttum töluvert af klaka í frystinum sem entist ótrúlega lengi og dugði t.d. til að kæla mjólk sem við keyptum í gær svo við gátum fengið kalda mjólk útá morgunkornið í morgun. Ég kom með klakabox í skólann í mogun og setti í frystihólfið í ísskápnum á kaffistofunni svo kannski fáum við aftur kalda mjólk í fyrramálið. Ég geri ráð fyrir að við fáum okkur bara salat í kvöld eða finnum eitthvað gott á grillið.
Við vitum ekkert hvað þetta mun standa yfir lengi. Orkufyrirtækið (AEP) lofar engu fyrr en á sunnudaginn, þó flestir búist við að það gerist fyrr. Það hægði auðvitað á viðgerðarhraða þar sem um þriðjunur starfsmanna AEP voru sendir til Texas í viðgerðir vegna skemmdanna sem Ike olli þar. Það er þó komið rafmagn á skólann hans Ella sem er bara hinumegin við götuna og eitthvað af húsum í Bexley hafa rafmagn. En það er t.d. ekki rafmagn á veitingastöðunum í næstu blokk (getum ekki keypt okkur COSI samloku) og ekki heldur á umferðarljósunum þar.
En á meðan kveikjum við bara á fullt af kertum og allir hafa sitt eigið vasaljós. Það er líka alveg merkilegt hvað maður fer snemma að sofa þegar það er ekkert sjónvarp 🙂
Nú eru liðnir 48 tímar síðan rafmagnið fór. Það er byrjað að hlýna úti þannig að loftið í íbúðinni er ekki að batna.
Þetta er með ólíkindum. Við búum í stórborg í ríkasta landi heims og 18 m/s setja borgina á hliðina í marga daga. Því má bæta við að Columbus slapp víst fremur vel enda fylgdi engin úrkoma vindinum, líkt og í Illinois, Indiana og Michigan.
Hér er fyrsta almennilega haustlægðin að koma. Var að koma inn holdvotur eftir að hafa fest grill og plasthús í garðinum. Býst nú við að þessari lægð fylgi ekki samlokuskortur 🙂
Vona að rafmagnið komist sem fyrst á hjá ykkur og lífið fari ekki of mikið úr skorðum.
Þessa stundina fara leifarnar af Ike yfir hjá okkur með talsverðu roki og mikilli rigningu, spáð er 25 m/s um miðnætti. Þakplötur og trambólín eru farnar að fjúka og búið að kalla út hjálparlið.
En ljósin loga glatt, enda ekki mikið af stórum trjám sem falla á rafmagnslínur! Reyndar er ég hálf hrædd við hálfilla rætt reynitré í garðinum mínum, enda krónan þung af berjum. Ég hlammaði niður þungum múrsteini til að syðja ofan á rótarhnausinn áveðurs og vonandi dugar það.
Hæ elskurnar. Það er gott að hitastigið er rétt við svona aðstæður. En eitt þarf ég að leiðrétta. Spennistöð framleiðir ekki rafmagn.
Rafmagn er framleitt í rafstöðvum (Raforkuver). Spennistöðvar breyta spennunni eins og nafnið lýsir. Hærri spenna leiðir af sér minni straum og auðveldar flutning raforkunnar sem er P=U*I kW=spenna*straumur. Þannig að skólinn sér sjálfur um að framleiða rafmagn fyrir sig hvort sem það er bara sem varaafl eða keyrt að staðaldri, mig rámar í að hafa sér þær byggingar.
Ok, pabbi – ég er búin að laga færsluna.