Nú er allt komið á fullt hér í Bexleybæ, en Jenný byrjar í skólanum í dag. Þrátt fyrir að önnin mín hafi átt að vera rólegri en fyrri annir, þá er nóg að gera sér í lagi hjá Önnu. Heimavinnan hennar í skólanum er meiri en áður, sér í lagi vegna þess að hún er að taka 5. bekkjar stærðfræði, þrátt fyrir að hún sé í 4. bekk og þess utan er hún í sérkennslu fyrir börn sem standa sig sérstaklega vel í 5. bekkjar stærðfræði og í sérkennslu í ensku og bókmenntum fyrir börn með sérgáfu á því sviði. Þannig uppgötvaði ég þegar ég fór í kynningu á námsefni 4. bekkjar í skólanum hjá Önnu í síðustu viku, að hún er suma daga næstum ekkert í heimakennslustofunni sinni, en er til skiptis með fimmtu bekkjar krökkunum og í sérkennslustofunni fyrir afburðagreind börn (e. gifted children/afburðagreind er hugtakið sem Bragi Jósepsson í KHÍ notaði).
Þess utan byrjar Anna í strengjasveit Casshingham í dag, en hún hyggst læra á fiðlu. Hún æfir knattspyrnu á miðvikudagseftirmiðdögum og keppir á laugardagsmorgnum, og verður á sundnámskeiði á sunnudögum upp í OSU í október. Þetta þarf síðan að passa við önnur verkefni fjölskyldunnar, eins og námið hjá mér og Jennýju og leikskólann hans Tómasar. Að sjálfsögðu eru foreldrarnir líka í dagskrá. Við eigum ársmiða á fótboltaleiki OSU, ég spila knattspyrnu á sunnudögum, æfi flagfootball á laugardagsmorgnum og mánudagseftirmiðdögum. Jenný æfir síðan tennis reglulega. Það er e.t.v. ekki undarlegt að annað foreldrið í Bexley er yfirleitt heimavinnandi.
—
Þessi þétta dagskrá okkar merkir hins vegar að við eigum miða á OSU-Minnesota leikinn á laugardaginn, sem við getum ekki nýtt okkur. Þannig að ef einhver sem les þetta er á ferðinni í Columbus um helgina, þá hefur þú möguleika á að komast á leik á Ohio Stadium og þar sem það er alltaf uppselt á leikina, er þetta í raun einstakt tækifæri. Við erum sem sé að reyna koma miðunum í verð.
2 thoughts on “Allt í fullum gangi”
Lokað er á athugasemdir.
Miðarnir á OSU-Minnesota leikinn seldust í tíma í Gamla Testamentisfræðum í dag. Brad og Chris ákváðu að kaupa miðana af okkur.
Ég veit ekki alveg hvað ég á að halda, Gamlatestamenti og sölumennska á sama tíma. Þetta rifjar upp sögu frá Jerúsalem (að vísu úr nýrra testamentinu) um musteri og sölumennsku og Jesú nokkurn. Fer ekki alveg saman. Hvað er eiginlega verið er að kenna þarna hjá ykkur í BNA…. Eða á eftir að kenna nýrra testamentið frá grunni.
Ég fann samt ekki kappann (það er Jesú) þegar ég var á Golgata nýlega þrátt fyrir nokkra leit.