Í gær meðan Jenný beið á flugvellinum í Colorado eftir flugvél heim til Columbus, skreið Tómas upp í stofusófann með teppi og ákvað að leggja sig. Ég virti óskir drengsins sem svaf í næstum 3 klst. Þegar hann rumskaði þá sá ég að ekki var allt með felldu enda lak hann niður á gólf og lá þar með vin sinn Brutus Buckeye í fanginu. Hann gaf frá sér smá viðvörunarhljóð og ældi smávegis yfir gólfteppið og Buckeye, en ég náði að forða því mesta. Buckeye, buxurnar hans og sokkarnir enduðu í þvottavélinni, en Tómas settist í sófann með skál. Hann notaðist við skálina nokkrum sinnum meðan við horfðum á amerískan fótbolta í sjónvarpinu en vildi skiljanlega ekkert borða og ekkert drekka. Þegar Jenný kom heim, skaust ég út í búð til að útvega eplasafa sem Tómas fékkst til að drekka fyrir svefninn. Hann svaf síðan alla liðna nótt, og vaknaði hress í morgun. Við höfum hins vegar haldið honum inni í dag, og nú í kvöld þegar hann var háttaður komu í ljós rauðar doppur um allan magann og ljóst að þrátt fyrir að ekkert hafi amað að í dag, þá fær drengurinn ekki að fara í leikskólann á morgun. Ég velti fyrir mér hvort þetta sé mislingabróðir. Það sem bendir þó ekki til þess er að hann hefur hóstað svolítið í dag og í gær og eins eru uppköst ekki nefnd í mislingabróður lýsingum. Þá hélt ég eiginlega að Tómas hefði fengið bróðirinn áður. En við sjáum hversu lengi útbrotin endast og ef ekkert lagast seinnipartinn á morgun kíkjum við kannski á barnalæknastofuna.
One thought on “Lasi grasi”
Lokað er á athugasemdir.
Tómas er ekki lengur lasinn og fór í leikskólann í gær, miðvikudag.