DJ vígður

Í gær leigði ég bílaleigubíl og hélt sem leið lá til Toledo, en borgin er upp við fylkjamörk Michigan og rétt um 240 km frá Columbus. Þannig var að DJ Dent samnemandi og -starfsmaður hjá Healthy Congregations var að vígjast til prests, en hann mun þjóna í lútherskri kirkju í Arcadia. En Arcadia er 537 manna bær í Ohio hálfa leið milli Columbus og Toledo. Ég lagði af stað rétt fyrir 8 að morgni og var kominn til Toledo ríflega 10, en vígslan var kl. 11. Að vígslu lokinni var síðan boðið upp á hádegisverð fyrir kirkjugesti, sem fólst í djúpsteiktum kjúkling og kartöflumús. Síðan var auðvitað skúffukaka í eftirrétt með amerísku smjörkremi.
Ég ákvað að nota tækifærið og fara í smáferðalag um Norður Ohio eftir matinn og keyrði sem leið lá eftir Route 2 eftir Erie vatninu og til Sandusky, en ég hafði heyrt að miðbær Sandusky væri mjög skemmtilegur. Þegar þangað var komið áttaði ég mig samt fljótlega á að Sandusky er sumarbær, enda fullur af skemmtigörðum sem loka yfir veturinn. Ég fann samt kaffihús sem var mjög skemmtilegt í miðbænum og sat þar í 1 klst, las yfir ritgerðir nemenda í Pastor as Leader, sem ég er aðstoðarkennari í og skrifaði athugasemdir og ábendingar. Ég ákvað síðan að halda heim á leið og keyrði Route 250, sem liggur á ská í gegnum dreifbýlið í Norður Ohio, niður að I71 hraðbrautinni milli Cleveland og Columbus. Það var augljóst hver var vinsælasti forsetaframbjóðandinn á þessu svæði, heimahöfn Joe the Plumber, en meðfram Route 250 voru alstaðar John McCain skylti, og ég hugsaði þegar ég keyrði fram hjá hreysum sem litu út fyrir að vera lítið stærri en hjólhýsi með gömlum þreyttum pick-up bílum, hvers vegna í ósköpunum þetta fólk styddi frambjóðanda sem heldur á lofti mikilvægi þess að lækka skatta þeirra ríkustu í landinu og draga úr aðgengi þeirra lægra launuðu að heilbrigðisþjónustu. En að sjálfsögðu stoppaði ég ekki og spurði enda hefur Obama svo sem svarað spurningunni, með hinni alræmdu athugasemd um „byssur og trúarafstöðu“.
Alla vega, það var áhugavert að aka í gegnum þetta svæði sem er svo óhugnanlega ólíkt borginni sem við búum í, á allan hátt, þrátt fyrir að vera sama fylki.

E.s. Við höfum bætt við myndum, m.a. frá Hrekkjavöku.

3 thoughts on “DJ vígður”

  1. Ég veit þetta hljómar ef til vill kjánalega en, af hverju eru þessir kappar sem eru að vígjast til prests Plötunsúðar?

    Ekki nema hann heiti DJ, þá er hana eiginlega bara Awesome.

  2. Ég færi líklega oftar í híbýli Drottins ef guðsmaðurinn hrópaði ofan í háttstilltan bassan „Get up off it“ eða „Kick it!“ diskóljós og froðubað… Spurning um að prufa að ná til yngri kynslóða með messum klukkan 11 á kvöldin, þá erum við notla vöknuð…

    Hins vegar, ef DJ væri dj þá héti hann DJ DJ, sem er ekki alltof kúl..

Lokað er á athugasemdir.