Þegar ég útskriftaðist í vor ákvað Jenný að gefa mér iPhone farsíma í útskriftargjöf. En fyrir þá sem ekki þekkja til er iPhone millistig á milli fartölvu og farsíma, þar sem takmörkunin á notagildi felst í ímyndunaraflinu einu. Þannig nota ég símann til að fylgjast með útgjöldum heimilisins, í honum er dagbók, þangað kemur tölvupóstur, ég get uppfært hrafnar.net, fylgst með þyngdinni minni, skráð hvað ég borða, horft á bíómyndir, notað Skype til að hringja mjög ódýrt til Íslands, hlustað á útvarp og síðan er þetta auðvitað sími. Jenný sá fljótlega hversu mikið notagildi svona sími hefur, og þegar ég svo fékk Sudoko og RISK leikina í símann langaði hana líka í svona dót, skiljanlega.
Af þeirri ástæðu einni tilkynnti Jenný mér fyrir nokkru að hún hyggðist útskrifast frá OSU um jólin með meistaragráðu, þannig að ég þyrfti að gefa henni iPhone. Reyndar ætlar hún ekki að mæta í útskriftina (en ég þurfti að gera það). Það eina sem hún þurfti að gera til að fá meistaragráðuna var að að greiða upp stöðumælasektirnar sínar, en samt sá ég mig tilneyddan til að kaupa iPhone handa henni.
Þegar ég fékk símann minn í sumar, þurfti ég að panta hann í ATT-verslun, ganga frá alskonar pappírum og bíða síðan í rúma viku þar til síminn var afgreiddur úr búðinni. Af þessum sökum ákvað ég að ganga í að kaupa símann í tíma og fór fyrir tveimur dögum á vef ATT og sá að ef ég gengi frá pöntun símans þar, fengi ég afslátt á viðbótargjaldinu sem er lagt á símaáskriftina vegna iPhone. Ég ákvað að ganga frá pöntun og gerði ráð fyrir að það myndi taka nokkra daga, síðan þyrfti væntanlega að fara í ATT-búð og láta virkja símann og Jenný myndi fá símann sinn rétt í kringum útskrift í desember, en það var ekki svo. Þrátt fyrir að á vefnum segði að síminn kæmi líklega innan 10 daga, þá kom hann á innan við 24 klst, ég þurfti einungis að hringja eitt stutt símtal í ATT og Jenný er núna í skólanum, stolt með nýja iPhone-inn sinn og það löngu fyrir útskrift.
Ég vil bara taka það fram að ég þurfti ekki bara að borga stöðumælasektina til að fá meistaragráðuna. Ég þurfti að fylla út tvö blöð og fá undirskriftir á þau og fara með í næsta hús!
Ég hefði reyndar átt að fá mér þessa meistaragráðu fyrir um ári síðan en hafði aldrei jafngóða ástæðu til að drífa í því fyrr en nú. Útskriftin verður 14. desember og ég verð ekki viðstödd.
Já… þú segir nokkuð
Er ekki hægt að sníkja síma út úr ykkur, ég er að útskrifast úr iðnskólanum í vor, kannski stúdentinn í leiðinni ef ég er duglegur… þetta er nú líklega ekki virði nema Nokia samt… svona ef að ég þarf að taka Masterinn fyrir Iphone..
Hvað fær maður fyrir bachelor gráðu Jenný?
svona svo ég viti hvort það sé þess virði
kv. Bragi
Við eigum Samsung Sync 3G síma á lager hérna, annað hvort í svörtu eða dökkbláu. Eina vandamálið er að það þarf líklega doktorspróf til að geta notað þá.