Þrátt fyrir að í dag sé ekki þriðjudagur ákvað Tómas að hefja daginn með stæl og æla yfir morgunmatinn sinn við fremur litla lukku föður síns. Að sjálfsögðu var maðurinn þrifinn hátt og lágt og kastað upp í rúm til mömmu sinnar. Þar reis hann fljótt á fætur og lýsti því yfir að hann væri ekki veikur og vildi fara í leikskólann. Hann reifst um þetta við foreldra sína þar til hann ældi í annað sinn. Þessari morgunógleði drengsins var síðan lokið um kl. 10, þegar ég hélt í skólann hennar Önnu til að tala við alla krakkana í 4. bekk um hvernig það væri að flytja á milli landa. Ég var reyndar ekki einn á ferð því Mrs. Petrov var þarna líka en hún kom til Ohio frá Sovétríkjunum fyrir réttum 18 árum síðan. Við ræddum við börnin í 50 mínútur eða þar til að þau þurftu að halda í hádegismat. Það var margt mjög áhugavert í framsögu Mrs. Petrov, m.a. um stöðu gyðinga í Sovétríkjunum og ekki síður um hvernig hún upplifði lífið sem unglingur síðustu ár Ráðstjórnarríkjanna.
—
Annars er gaman að segja frá því að við fengum rétt í þessu yfirlit frá leikskólanum hans Tómasar vegna leikskólagjalda á árinu 2008. Ég man að þegar við fluttum hingað reiknuðum við út að mánaðargjaldið í leikskólanum væri nokkuð hátt, eða 41.700 krónur á mánuði m.v. þáverandi gengi og að teknu tilliti til afsláttar sem er í boði fyrir stúdenta. Ég reiknaði út frá yfirlitinu í dag hvert leikskólagjaldið hefði verið á síðasta ári m.v. gengið sem var notað við útreikning námslánanna minna nú í janúar, skv. því kostar leikskólaplássið hans Tómasar 101.910 krónur á mánuði eða 1.222.920 krónur á ári að teknu tilliti til stúdentaafsláttarins sem við fáum enn (fullt gjald án nokkurs afsláttar er 125-157.000 krónur á mánuði).
Hann vill bara vera í stíl við Haðarstígsgengið.