Óveður

Hér í Bexleybæ er víst mikið óveður og varaði rafmagnsveitan við í gærkvöldi að hugsanlega gæti rafmagnið farið af nágrannabyggðum, jafnvel í nokkra daga. Rafmagnið er nú samt en hjá okkur, en hins vegar eru allir skólar lokaðir. Reyndar var Trinity Lutheran Seminary fyrsta menntastofnunin til að lýsa yfir lokun í dag en tilkynning þeirra kom um kl. 14 í gær. Síðan fylgdu stofnanir og fyrirtæki í mið-Ohio í kjölfarið og listinn lengdist stöðugt í gærkvöldi. Það var síðan í morgun að skólinn hennar Önnu og Ohio State University tilkynntu lokun hjá sér.
Við erum því heima í rólegheitunum og horfum á snjóflygsurnar svífa til jarðar. Snjórinn er samt ekki eina vandamálið, þar sem að alla vega tvisvar á síðustu 12 tímum hefur snjórinn breyst í frosna rigningu, sem hefur lagt klakabrynju yfir snjóinn. Þannig er víst glerhált klakalag neðst, síðan 2-3 tommur af snjó, síðan aftur rennisléttur klakki og síðan ofan á það 3-4 tommur af snjó og enn bætir í.
Tómas er því enn á náttfötunum, Anna í tölvunni, Jenný að læra og ég á vefnum.

One thought on “Óveður”

  1. Þú getur þá kannski látið það fylgja með að þetta er Benna að kenna.
    Hafið það gott innivið, vonandi er til mjólk og brauð.
    Guðrún frænka

Lokað er á athugasemdir.