Óveðri slotað

Veðrið hefur róast nokkuð, en samt eru fjölmargir skólar hér í mið-Ohio en lokaðir og enn er fólk án rafmagns í dreifbýli. Það á samt ekki við um okkur hér. Skólinn hennar Önnu er opin og það sama á við um Ohio State og Trinity.
Þegar ég kom niður í morgun og börnin voru byrjuð að borða morgunverð ákvað ég að gera góðverk dagsins og skafa bílinn fyrir Jennýju, en hann var á kafi í snjó. Ég hóf verkið á því að sópa mesta snjóinn af með höndunum, enda ekki hægt að komast að hurðum bílsins með öðru móti. Undir snjónum kom í ljós rúmlega sentimeters klakabrynja. Til að ná henni af, þurfti ég að berja á klakann og rífa hann síðan utan af bílnum. Þegar þessu var lokið, kom í ljós annað snjólag, reyndar fremur þunnt sem ég gat sópað af og undir því var síðan önnur klakabrynja, líklegast rúmur hálfur sentimetri sem lá jafnt yfir öllu. Þegar hér var komið sögu var ég ekki enn kominn inn í bílinn. Ed nágranni okkar, kom til hjálpar, enda gat ég ekki haggað neinum hurðum, þar sem klakabrynjan lá yfir öllu. Ed var með heit vatn í könnum og við helltum heitu vatni yfir hurðarfalsa til að losa þær. Þegar ég svo tók í hurðarfangið farþegamegin sem er úr plasti, hrökk það í sundur vegna kuldans. Þegar hér var komið sögu hafði ég bisað við að skafa og hreinsa bílinn í næstum 20 mínútur og ekki ennþá komist inn. Ég tók því pásu, fór inn og sauð vatn.
Ég hélt síðan út í annað sinn og að þessu sinni tókst mér að opna bílstjórahurðina eftir að hafa hellt yfir öll samskeyti sjóðandi vatni og náð þannig að losa um hurðina nægilega til að hún opnaðist. Þessu næst startaði ég bílnum og eftir nokkrar mínútur lét mest af klakabrynjunni undan, þó ekki fyrr en önnur skafan okkar hafði brotnað.
Alla vega, Anna fékk far í skólanum með nágrönnunum sem hreinsuðu af bílunum sínum í gærkvöldi, Jenný og Tómas komust af stað í skólann rúmum hálftíma á eftir áætlun og líklega er best að ég fari út í skólann minn til að kaupa kennslubækur og byrja að lesa fyrir kúrsa sem hefjast á mánudaginn.