Myndin er af hótelherberginu mínu tveimur dögum eftir skjálftann. Ég mun breyta og bæta textann eftir því sem ég rifja upp atburðarásina og segi söguna oftar. Þetta hefur ekki verið lesið yfir með tilliti til stavsedningar.
Sagan hefst þriðjudaginn 12. janúar 2010, kl. 16:50. Ég stóð í bakgarði Florita hótelsins í Jacmel á Haiti eftir að hafa svarað umræðum á Facebook. Svarið var eitthvað á þessa leið (mín þýðing):
Ég er á námskeiði um söfnuði sem leitast við að vera samfélagslega ábyrgir og um mikilvægi þess að mynda tengsl og vináttu við aðra, í stað þess að reyna að bjarga öðrum. Svo, romm, bjór, veislumatur, stjórnmálaumræður, skólaheimsóknir, leika við börn, reyna að skilja Creole, bjór, samræður við háskólanema og að upplifa gestrisni.
Þá byrjaði skjálftinn (7,1 á Ricther). Ég staldraði við augnablik og gekk síðan undir bogadregið dyraop að andyri hótelsins. Þegar ég sneri mér að bakgarðinum þar sem ég hafði setið nokkrum mínútum áður, sá ég ekkert nema svart steinsteypuryk. Framkvæmdastjóri hótelsins (Jean) kom hlaupandi úr andyrinu og ég sagði honum að standa hjá mér í dyraopinu, þar til skjálftinn stöðvaðist. Fljótlega eftir að skjálftinn hætti, heyrði ég að Laura og Kellie komu niður stigann á aðalbyggingu hótelsins, berfættar. Ég sagði þeim strax að standa með mér í dyraopinu, þar sem það væri líklega öruggasti staðurinn sem við kæmumst að í augnablikinu. Um sama leiti kom Brad Binau yfir til okkar. Þegar hann tók eftir að stelpurnar voru berfættar, prílaði hann til baka yfir bakgarðinn og inn í herbergið sitt til að sækja skófatnað fyrir stelpurnar og farangurinn sinn.
Við heyrðum fljótlega hróp og öskur og hópur manna kom inn á hótelið að leita að fólki í rústunum. Þeir fundu strax, kokk hótelsins, Alexöndru, í bakgarðinum, hálfgrafna í rústum. Ég og Brad Binau reyndum að hjálpa þeim að grafa hana upp, en þar sem við skyldum ekki Creole, var erfitt að samstilla aðgerðir. Skyndilega kom eftirskjálfti (5,8 á Richter, 7 mínútum eftir fyrsta skjálftann) og við hörfuðum til baka í dyraopið. Um það leiti hafði ég tekið eftir að sá hluti hótelsins þar sem herbergið mitt var, tveggja hæða bygging við bakgarðinn, hafði algjörlega jafnast við jörðu.
Fljótlega komu Verbo og Doug Hill á hótelið og sögðu okkur að allir í hópnum okkar væru örugg og biðu okkar á torgi ofar í bænum. Þeir spurðu jafnframt hvort við værum slösuð, sem reyndist ekki vera. Laura nefndi einhvern tímann meðan á þessu stóð að við þyrftum að láta Abiding Hope kirkjuna í Colorado vita að við værum öll óhult og hvað hefði gerst. Við höfðum ekki símanúmer kirkjunnar svo ég hringdi í Jennýju, sagði henni frá jarðskjálftanum og að hótelið hefði hrunið og fékk hana til að senda mér símanúmer kirkjunnar á SMS. Jenný eða Binni sendu mér símanúmerið á SMS kl. 17:17 og ég hringdi samstundis í kirkjuna til að láta vita af okkur, hvað gerðist og hvernig við hefðum það.
Doug og Verbo, reyndu að hjálpa til við að grafa upp son hótelstjórans, en grunur var uppi um að hann væri fastur undir vegg á annarri hæð. Fljótlega kom þó í ljós að hann hafði náð að hlaupa út og var ómeiddur. Þá veittu þeir hjálparhönd við að hjálpa konunni sem var föst undir rústunum í bakgarðinum. Þegar henni hafði verið bjargað ákvað Doug að fara með stelpunum upp á efri hæðir hótelsins og bjarga þeim farangri sem hægt var að bjarga. Ég mótmælti þeirri ákvörðun og benti á að húsið væri ekki öruggt og stórhættulegt að fara upp á aðra og þriðju hæð, við ættum einfaldlega að koma okkur á opið svæði. En ég áttaði mig fljótlega að þeim varð ekki haggað. Nokkrum mínútum síðar, sem liðu mjög hægt, Doug og stelpurnar komu niður með farangur flestra og við hjálpuðumst að við að bera allt út. Þegar allar töskur voru komnar út á götu fyrir utan mína og töskur Jared og Kristen sem höfðu grafist undir byggingunni sem hrundi alveg, fóru Doug og Brad inn á bar hótelsins og sóttu allt flöskuvatn sem þeir gátu fundið og settu í töskurnar.
Við gengum eftir götum Jacmel að torginu þar sem afgangurinn af hópnum hafði beðið í þónokkurn tíma. Þegar við komum með töskurnar að torginu, var fjölmargt fólk samankomið þar og við tókum eftir að nokkur ókyrrð var í hópnum. Eftir að hafa heyrt eitthvað sem hljómaði eins og byssuskot, við ákváðum að fara annað. Við héldum að torgi framan við ráðhús bæjarsins og héldum til þar um tíma, meðan Maya fór á mótorhjóli upp að Trinity House til að kynna sér aðstæður þar og sjá hvort við gætum haldið þangað og fengið skjól. Við urðum vör við nokkra veika eftirskjálfta meðan við héldum til á torginu (einn var a.m.k. 5,7 á Ricther kl. 18:12). Meðan við héldum til á torginu með örugglega um þúsund manns, var sólsetur og það kom svartamyrkur.
Þegar Maya kom til baka, sagði hann okkur að við gætum haldið að Trinity House og við röðuðum okkur upp í einfalda röð og gengum af stað í gegnum Jacmel og frá miðbænum. Þegar við færðumst frá miðbænum og nær Trinity House, var eins og andrúmsloftið tæki að breytast, óttinn og stressið breytist í söng og við gengum fram hjá hundruðum sem sátu utan við húsin sín með börn sín og söng. Ég skil ekki mikið í Creole en það var augljóst að fólkið söng sálma og trúarleg ljóð. Þegar við komum að Trinity House höfðu strákarnir sem búa þar safnast saman á knattspyrnuvelli við húsið. Þegar við komum að vellinum voru þeir að syngja sálm á Creole sem á ensku heitir “How Great Thou Art” (það er ekki sami sálmur og „Hærra minn Guð til þín“ eins og ég sagði fyrst, en textarnir eru svipaðir). Þetta var mjög áhrifamikil upplifun og ég gekk lítillega frá hópnum og grét.
Við héldum til við Trinity House í nokkra stund, þar til Sarah ungur hjúkrunarfræðingur frá Alberta í Kanada, birtist á pallbílnum sínum og bauð okkur far á flugvöllinn í Jacmel, þar sem Sameinuðu þjóðirnar hefðu sett upp einhvers konar neyðarmiðstöð. Ég heyrði útundan mér að einhverjir nefndu hugsanlega flóðbylgju og þar sem flugvöllurinn væri hærra yfir sjávarmáli, væri það öruggari staður. Sarah sagði okkur smá frá sjálfri sér meðan við keyrðum á flugvöllinn, en hún hafði komið fyrst til Haiti 2001 og væri komin aftur til að reyna að starfrækja mæðravernd í Jacmel. Það er vert að nefna að í öðru afturdekkinu á pallbílnum var nagli pikkfastur. Sarah hafði ekki varadekk með sér, og sagði eitthvað á þá leið að það væri ekki ástæða til að hafa áhyggjur fyrr en naglinn dytti úr.
Þegar við komum á flugvöllinn, komum við okkur fyrir ásamt strákunum frá Trinity House. Við settum farangurinn í hrúgu í miðjuna, lögðumst í hring utan um hrúguna, notuðum töskur sem kodda og létum fæturna standa út. Þannig sváfum við eða reyndum að sofa í gegnum nóttina. Á nokkra mínútna fresti fundum við eftirskjálfta, vissulega missterka en það var skrítið að liggja á jörðinni og finna hvernig hún titraði. Við heyrðum fólkið sem hafði safnast þúsundum saman á vellinum syngja og biðja stöðugt meira og minna alla nóttina. Um kl. 4 um nóttina kom stór hópur fólks inn á flugvallarsvæðið syngjandi lofgjörðarsálma og fjölmargir sem voru þá þegar á vellinum stóðu upp og tóku undir (Við heyrðum að þetta hafi verið hópur úr smábæjum í fjöllunum í kring sem héldu syngjandi í „öryggið“ í Jacmel strax eftir skjálftann. Þegar þau gengu í gegnum bæi á leiðinni fjölgaði smátt og smátt í hópnum þar til þau komu loks á flugvöllinn). Við sólarupprás á miðvikudagsmorgninum, 13. janúar, byrjaði fólk á vellinum að safna saman eigum sínum og um kl. 8 að morgni voru flestir íbúar Jacmel farnir af vellinum.
Við gátum í sjálfu sér ekki farið neitt, en ákváðum að halda okkur í skugga undir tré þennan morgun. Þegar leið á morguninn sáum við að fólk byrjaði að streyma aftur á völlinn og fljótt var mikið af fólki samankomið aftur, mestmegnis í kringum skyndihjálpartjöld sem Sameinuðu þjóðirnar höfðu sett upp um nóttina. Við sátum í skugga, sváfum í nokkrar mínútur, spjölluðum við hvort annað og fólkið sem hélt til að vellinum og fluttum okkur til reglulega eftir því sem sólin færðist (til að vera stöðugt í skugga). Um miðjan dag höfðum við samband við Sameinuðu þjóðirnar og Brad Binau fékk að hringja frá aðalstöðvum SÞ í Jacmel til BNA. SÞ lét okkur einnig vita að við gætum hugsanlega fengið inni á hóteli sem hafði staðist jarðskjálftann án nokkurra skemmda. Það er ýmislegt minnistætt sem við sáum þennan dag. Þannig sáum við konu taka banana og brjóta hann í 7 bita, svo fleiri gætu fengið alla vega eitthvað að borða. Eins sáum við eldri konu taka brauðbita sem eitt okkar gaf henni og brjóta smámola og gefa slösuðu fólki sem hafði safnast saman við tjöld SÞ. Verbo mætti seinnipartinn í flóttamannabúðirnar á vellinum með skjalatösku, opnaði hana og tók úr henni sturtuhengi sem hann svo notaði til að útbúa salernisaðstöðu, eða a.m.k. aðstæður þar sem fólk gat skolað af sér helsta steypurykið.
Um kl. 17 fengum við tilkynningu frá SÞ að við gætum haldið á hótel sem væri öruggt og byggt skv. ströngum byggingarstöðlum. Þeir sögðu okkur að þeir gætu keyrt okkur að hótelinu, en gætu hins vegar ekki sótt okkur á flugvöllinn. Við þyrftum að komast að aðalstöðvum SÞ, um 800 metra frá vellinum. Verbo leigði pallbíl með bílstjóra og við hrúguðum okkur og farangrinum upp á pallinn, sem síðan keyrði okkur þennan tæpa kílómetra. Starfsmenn SÞ keyrðu okkur svo að Cap Lamandou hótelinu þar sem við dvöldum frá miðvikudagskvöldi fram að laugardagshádegi.
Þetta miðvikudagskvöld hittum við Bandaríkjamann sem gaf mér bol og stuttbuxur, ásamt hleðslutæki fyrir iPod frá Griffin. Ég skrifaði miða fyrir hann, til íslensku hjálparsveitarinnar. Þar sem ég óskaði eftir að hann fengi að nota gervihnattasíma hópsins til að hringja eitt símtal til BNA. Bandaríkjamaðurinn fór daginn eftir á mótorhjóli til Port au Prince, en hann hafði aðgang að þyrlu í BNA sem ætlaði að sækja hann þangað, ef hann gæti hringt eftir henni. Um þetta leiti á miðvikudeginum vissum við að vegurinn til PAP væri ófær fyrir bíla, en hægt væri að fara á milli á mótorhjólum, ef hjólin væru leidd í gegnum erfiðustu hindranirnar. Hótelið sem við dvöldum á hafði hins vegar þráðlaust net, þannig að við gátum notað símann minn til að senda tölvupóst og eins gat ég fljótlega notað Skype til að hringja.
Á fimmtudag fór hópurinn gangandi niður í miðbæ, kom við í Trinity House á leiðinni og skoðaði skemmdirnar á Florita hótelinu. Hótelstjórinn var á svæðinu en hann hafði fundið tökuna hennar Kristen í rústunum og afhenti hópnum. Ég ákvað að fara ekki með hópnum, en taka það rólega á hótelinu, fylgjast með fréttum og finna leiðir til að koma skilaboðum til vina og ættingja. Ég uppgötvaði fljótlega að hleðslutækið sem Bandaríkjamaðurinn hafði gefið okkur daginn áður virkaði ekki fyrir símann minn og varð fremur pirraður, enda ekki um önnur hleðslutæki að ræða. Hins vegar virkaði hleðslutækið fyrir iPod Touch sem Laura átti og ég gat notað hann til að senda tölvupóst og lesa fréttir. Eftir að hafa pirrast út í sjálfan mig fyrir að hafa ekki símaaðgang, fór ég upp á herbergið mitt og lagðist í rúmið til að leggja mig. Þegar ég hafði lagt út af var mér litið á bakvið náttborðið við rúmið og mér til mikillar undrunar var þar „original“ hleðslutæki fyrir iPhone síma í sambandi, en augljóslega hafði einhver af fyrri gestum hótelsins gleymt því þar. Ég ákvað samstundis að leggja mig ekki og þar sem það var ekkert rafmagn á hótelinu yfir daginn, nema í andyrinu, fór ég niður í andyrið og setti símann í samband við nýja hleðslutækið sem virkaði auðvitað fínt. Meðan ég beið eftir að síminn minn væri tilbúinn til notkunar fór ég aftur að lesa fréttir á iPodnum hennar Lauru, allt þar til hópurinn kom aftur.
Við átum saman um kvöldið og söfnuðumst svo saman til að ræða atburði síðustu daga og biðja saman. Við lásum söguna um Emmausfarana og leituðumst við að svara spurningunni: Hvar mætti Jesús þér síðustu 48 klst? Þegar einhver hafði sagt sögu af upplifun sinni, höfðum við þögn í nokkra stund, áður en við lásum ritningarvers og spurðum spurningarinnar að nýju.
Á fimmtudeginum biðum við og gerðum ekkert. Við hengum við sundlaug hótelsins og biðum eftir að eitthvað gerðist, vonuðumst eftir einhverjum fréttum, einhverju. Ég skrifaði þennan dag smá pistil fyrir tru.is, þar sem ég kallaði eftir stuðningi við fólkið á Haiti, og reyndi að vera upplýstur um hvað var verið að ákveða.
Á föstudeginum fengum við fréttir um mögulega björgun úr lofti. Ég hafði ekki fylgst með tölvupóstinum reglulega og þegar ég loksins sá skilaboðin sem var verið að reyna að koma til okkar, hljóp ég upp að herberginu hjá Doug til að láta vita. Það myndaðist nokkur spenna í hópnum, enda ekki á hverjum degi sem ég hleyp, og ég ákvað að ræða í rólegheitum við alla í hópnum til að láta þau vita að ég hefði líklega misskilið skilaboð sem við fengum og búið til of miklar væntingar um eitthvað sem væri líklega ekki neitt. Á föstudagskvöld fengum við að vita að hótelið hefði ekki meiri mat og í kjölfarið mætti systir Verbo með heitan mat á svæðið og gaf okkur að borða. Um kvöldið settumst við síðan niður með Maya, sem hafði fylgt okkur í gegnum alla þessa reynslu, og hann sagði okkur sögu sína. Ég hafði heyrt hluta af henni fyrr. Saga Maya er án vafa saga um von.
Það er vert að nefna að kl. 15:41 kom tölvupóstur frá Chad Johnson á símann minn um að fjölskylda Maya væri óhult eftir skjálftann, en Maya hafði ekki náð neinu sambandi við þau frá skjálftanum. Þetta var án vafa einhver besta upplifun mín í gegnum þessa reynslu.
Hlutirnir gerðust hratt á laugardeginum. Um kl. 10 að morgni var okkur sagt að við værum líklega á leið til Dómíníska Lýðveldisins á bát sem Verbo hefði fundið fyrir okkur. Við þyrftum að pakka og vera tilbúin til að fara án tafar. Í fyrstu var talað um snekkjur sem hljómaði reyndar of gott til að vera satt. Um hádegi tróðum við okkur öll í lítinn sendibíl og keyrðum í rétt um klukkustund, þar til við komum í lítinn fiskibæ. Við biðum þar nokkra stund, fengum björgunarvesti og skiptum okkur upp í tvo hópa.
Þegar við komum að bátunum var ég beðinn um að skipta um hóp. Ég fór um borð með hinum hópnum og bátnum okkar var ýtt á flott. Báturinn fylltist hins vegar af vatni þegar hann skall á sjónum, sjómennirnir ákváðu að senda okkur aftur í land og skipta um bát. Hinn hópurinn fór hins vegar á flot án vandræða og sigldu af stað með 25 hestafla mótornum sínum.
Við fórum í nýjan bát, mótorinn var settur aftan á bátinn og honum var ýtt á flot, nú án vandkvæða, nema hvað, mótorinn fór ekki í gang. Eftir rétt um 30 mínútur, þar sem mikið var hrópað og margt gert til að koma mótornum í gang, hrökk hann skyndilega í gang og við héldum af stað. Þar sem mótorinn okkar var heil 40 hestöfl vissum við að við myndum líklega draga á hinn hópinn og ná honum að lokum. Bátsferðin var um margt heillandi. Sjórinn var glæsilegur, sólin var ekki eins sterk og við óttuðumst og sjávarblærinn var hressandi. Þetta reyndist hins vegar löng ferð. Eftir rúmlega tvo tíma við náðum hinum bátnum og fórum framúr þeim. Við héldum síðan áfram í rúmar 3 klst, þar til við komum að smáum bæ, Haiti megin við landamærin inn í Dómíníska Lýðveldið. Um þetta leiti settist sólin. Það var mjög hrollvekjandi að bíða eftir hinum bátnum í myrkrinu og eftir rúmlega klukkustundarbið, við vissum að eitthvað hafði farið úrskeiðis. Við lærðum smátt og smátt að hin báturinn hefði orðið bensínlaus, en það var óljóst hvað það þýddi fyrir okkur. Sjómennirnar á okkar bát héldu til baka til að hjálpa þeim og eftir rúmlega tveggja klukkustundabið, hópurinn var allur kominn saman á ný.
Landamærunum hafði verið lokað yfir nóttina þegar hér var komið sögu, svo við fengum að gista í hálfbyggðu hóteli í þessum smábæ á Haiti. Verbo fann mat fyrir okkur þá um kvöldið og við ákváðum að vakna snemma og halda yfir landamærin strax og þau opnuðu.
Við vöknuðum snemma á sunnudagsmorgni, tókum dótið okkar og gengum að landamæraskrifstofunni Haiti megin við landamærin. Verbo var ekki ánægður með hversu hæg þjónustan var á skrifstofunni og bauð starfsmanninum að taka yfir starfið hans og fylla út alla nauðsynlega pappíra, svo við kæmumst yfir. Það var þegið og eftir að Verbo tók yfir, gekk pappírsvinnan mjög hratt. Við gengum yfir landamærin og afgreiðslan hjá starfsfólki Dómíníska Lýðveldisins gekk mjög hratt. Við hittum Rob Barger og ónefndan vin hans, sem Rob hafði hitt einhvers staðar á ferð sinni og beðið hann um að hjálpa sér. Rob kallaði til mótorhjólagengi til að koma okkur öllum að rútustöðinni, þar sem áætlanaleiðin stöðvaði á leið til Santa Domingo. Flestir fengu sæti aftan á skellinöðru en ég fékk að sitja í framsætinu á bíl þeirra félaga. Þar lærði ég að ónefndi félagi Rob, hafði verið í sumarfríi á Íslandi síðasta eða þarsíðasta sumar.
Við fórum í borð um rútuna eftir nokkra seinkun sem við bárum ábyrgð á. Ferðin tók um 8 klst og endaði á flugvellinum í Santa Domingo. Allan tímann hljómaði hress karabísk tónlist ótrúlega hátt í hátalarakerfinu. Ég ákvað að hlusta frekar á eigin tónlist, fékk lánuð heyrnartól og hlustaði á Sigur Rós og Jack’s Mannequin allan tímann. Enda var ég ekki í skapi til að hlusta á karabíska stuðtónlist.
Á flugvellinum var hægt að útvega hópnum flug með American Airlines til Miami á mánudag og þriðjudag, án aukakostnaðar vegna flugmiðabreytinga. Doug og Brad fundu mjög fínt hótel fyrir okkur, Embassy Suites, þar sem við síðan dvöldum þar til við flugum til BNA.
Ég og þau sem ferðuðust með mér yfirgáfum hótelið kl. 4:30 á þriðjudagsmorgni, flugum frá Santa Domingo kl. 8:30, biðum á flugvellinum í Miami næstum allan daginn og flugum þaðan til Denver kl. 18:30. Ég svaf heima hjá Witt fjölskyldunni eina nótt og flaug til Columbus á miðvikudegi, með millilendingu í Memphis. Ég lenti svo í Columbus kl. 17:00 á miðvikudeginum 20. janúar.