Smá ferðayfirlit

Það er þónokkuð um ferðalög framundan hjá fjölskyldunni í Bexleybæ næstu vikur og mánuði.
Núna á laugardaginn ætlum við að keyra snemma morguns til Louisville í Kentucky til að hitta ræðismann Íslands. En við þurfum að fá vegabréfið hennar Önnu framlengt um ár. Jafnframt munum við nota tækifærið til að kjósa í Icesave kosningunum, ef þeim verður ekki aflýst fyrir helgi.

Næsta ferðalag verður svo 17. mars en þá heldur Jenný með Önnu og Tómas til Boston og síðan áfram til Íslands. En þau verða á Íslandi fram yfir páska.

Á meðan hyggst ég skrifa STM ritgerðina mína af miklu kappi og fara í eitt styttra ferðalag sjálfur.

Föstudagsmorgun 19. mars ætla ég að keyra sem leið liggur til Dayton í Ohio og fljúga þaðan til Denver á leið minni til Littleton. Þar mun ég vera fram á mánudagskvöld.

Ástæðan fyrir ferðalaginu til Littleton er að Resurrection Dance Theater frá Haiti verður þar með dagskrá á vegum Abiding Hope Lutheran Church og nokkur okkar sem vorum á Haiti ætlum að fara. En Resurrection Dance Theater var eitt af verkefnunum sem við ætluðum að sjá á Haiti. Þetta er að sjálfsögðu einnig frábært tækifæri til að hitta aftur þann hluta ferðahópsins sem býr í Littleton.